„Sláandi fréttir fyrir alla“

mbl.is/Sigurður Bogi

„Við fylgjumst auðvitað með þessu og aðstoðum eins og við mögulega getum þá bændur sem verða fyrir þessu mikla áfalli í sínum búskap,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við mbl.is.

Bráðabirgðaniðurstöður benda til riðusmits hjá fé á þremur bæjum í Skagafirði, sem komið hafði upprunalega frá sauðfjárbúinu á Stóru-Ökrum, þar sem staðfest smit hefur greinst í þriggja vetra hrúti.

Ekkert verður fullyrt enn um sinn um útbreiðslu smits á bæjunum þremur, Syðri-Hofdölum, Grænumýri og Hofi í Hjaltadal, og er endanlegra niðurstaðna ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi seint á þriðjudaginn. 

Fjármörg bú

„Þetta eru fjármörg bú auðvitað. Þetta eru sláandi fréttir fyrir alla, bæði þessa bændur og alla sauðfjárbændur,“ segir Guðfinna. Um er að ræða einhver stærstu sauðfjárbú landsins.

Flutningur fjár út úr Tröllaskagahólfi, þar sem allir þessir bæir eru, er ekki leyfður, þannig að ekki er óttast að riðan hafi getað breitt úr sér víðar. Guðfinna segir þetta þó áminningu um að riðan geti skotið upp kollinum hvar sem er. Hólfið hefur verið riðufrítt nærri því að öllu leyti í 20 ár.

Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra, segir við mbl.is að menn séu að gefa sér tíma til að ná utan um ástandið og á hvaða bæi fé hafi farið sem kann að hafa reynst smitað. Hann segir umfangsmikið verkefni fram undan en æskilegt sé að bíða endanlegra niðurstaðna áður en lengra er haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert