10 með Covid-19 á Reykjalundi

Nú hafa fimm sjúklingar og fimm starfsmenn greinst jákvæðir fyrir Covid-veirunni undanfarna tvo sólarhringa. Jafnframt eru 19 aðrir starfsmenn Reykjalundar komnir í sóttkví vegna þessa eins og er, auk þeirra sjúklinga sem eftir verða á deildinni Miðgarði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pétri Magnússyni, forstjóra Reykjalundar. 

Þar segir ennfremur, að í gær hafi Reykjalundur sent frá sér tilkynningu um að kvöldið áður hefðu tveir starfsmenn Reykjalundar mælst jákvæðir fyrir Covid-veirunni.

Markvissir verkferlar fóru í gang

„Þeir eru báðir starfsmenn á Miðgarði sem er sólarhringsdeild með 14 rúmum. Á deildinni dvelja nú 16 sjúklingar þar sem Reykjalundur hefur verið að leggja sitt af mörkum síðustu daga með því að taka við sjúklingum af Landspítala til að létta þar á.

Um leið og grunur kom upp um mögulega sýkingu, sem og eftir að jákvæð sýni greindust, fóru í gang markvissir verkferlar um sóttvarnir og varnir gegn smitleiðum. Aðgerðirnar eru gerðar í nánu samráði við Smitrakningarteymi Almannavarna og Landspítala.

Allir sjúklingarnir ásamt hópi starfsmanna fóru samstundis í sóttkví,“ segir í tilkynningunni. 

Sjúklingarnir fluttir á Covid-deildir LSH í kvöld

Þá kemur fram, að í kvöld hafi niðurstöður úr sýnatöku legið fyrir og því miður hafi komið í ljós að fimm úr sjúklingahópnum séu jákvæðir fyrir Covid-veirunni og er einn þeirra kominn með einkenni. Umræddir sjúklingar verði af öryggisástæðum fluttir af Reykjalundi á Covid-deildir Landspítala síðar í kvöld. Sjúklingum og aðstandendum þeirra hefur verið kynnt staða mála.

„Nú hafa því 5 sjúklingar og 5 starfsmenn greinst jákvæðir fyrir Covid-veirunni undanfarna tvo sólarhringa. Jafnframt eru 19 aðrir starfsmenn Reykjalundar komnir í sóttkví vegna þessa eins og er, auk þeirra sjúklinga sem eftir verða á deildinni Miðgarði.

Ekki ljóst hvaðan smit hafi borist á deildina

Ekki er ljóst hvaðan Covid-smit hefur borist inn á deildina og mikilvægt er á þessari stundu að einbeita sér að velferð þeirra sem eiga um sárt að binda vegna þessa, frekar en að benda á mögulega sökudólga. Nærgætni og hlýja hafa sjaldan átt meira við en nú. Sem betur fer, hafa í ljósi stöðunnar verið í gildi mjög strangar sóttavarnarreglur á Reykjalundi síðustu vikur. Starfsemin hefur farið fram í skilgreindum sóttvarnarhólfum þannig að starfsemi Miðgarðs hefur verið aðskilin annarri starfsemi,“ segir ennfremur.

Þá segir, að varðandi framhald á annarri starfsemi á Reykjalundi næstu daga verði gefin út tilkynning seinni partinn á morgun um næstu skref.

Þakkar fyrir markviss og öguð vinnubrögð

„Við sjúklinga okkar og aðstandendur þeirra vil ég harma þau óþægindi sem þetta ástand og ráðstafanir því tengdu hafa í för með sér. Jafnframt vil ég senda öllum sjúklingum og starfsfólki Miðgarðs mínar bestu kveðjur enda bíða mjög erfiðir dagar, hvort sem fólk er í veikindum, sóttkví eða við vinnu. Ég vil einnig þakka fyrir markviss og öguð vinnubrögð í þessu erfiða máli um leið og ég þakka starfsfólki annara deilda á Reykjalundi fyrir aðstoðina við að manna vaktir á Miðgarði og ýmis verk og verkefni sem þessu erfiða máli tengjast.

Ekki má gleyma að senda öllum þeim sem hafa sýkst, hvort sem þau tengjast Reykjalundi eða ekki, góða strauma og okkar bestu batakveðjur,“ segir Pétur í tilkynningunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert