Valkvæðum skurðaðgerðum verði frestað

Alma Möller á upplýsingafundi í dag.
Alma Möller á upplýsingafundi í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Alma Möller landlæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að þeim fyrirmælum skuli beint til heilbrigðisstofnana og starfsmanna að frá 27. október til 15. nóvember verði valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum ífarandi aðgerðum frestað.

Skiptir þá engu hvort aðgerðirnar eru framkvæmdar innan eða utan spítala eða innan eða utan opinbera kerfisins. Þetta er gert í ljósi þess að svona aðgerðir geta kallað á innlagnir eða komu á bráðamóttöku, að sögn Ölmu.

Minni aðgerðir sem hægt er að framkvæma í staðdeyfingu og speglanir í greiningarskyni verða leyfðar. Á upplýsingafundi sagðist hún telja að heilbrigðisráðherra myndi samþykkja þetta og fyrirmælin yrðu birt í dag.

Hún sagði að þótt skurðaðgerðum fækkaði tímabundið væri önnur heilbrigðisþjónusta veitt. Alltaf væri skynsamlegast að hringja á undan sér í þeim tilfellum.

375 í bakvarðasveit

Alls hafa 375 verið skráðir í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar í 14 stéttum. Nýjasta stéttin er félagsráðgjafar. Enn vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í bakvarðasveitina á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess væri gott að fá fleiri skráningar á landsbyggðinni, sagði Alma.

Hún bætti við að við værum öll almannavarnir og samstaða væri mikilvægasta sóttvörnin í baráttunni við kórónuveiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert