Hreyfing mikilvæg fyrir andlega heilsu

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar segir mikilvægt fyrir andlegu heilsuna að …
Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar segir mikilvægt fyrir andlegu heilsuna að hreyfa sig. mbl.is/Árni Sæberg

Næstu vikurnar ætla Hreyfing og mbl.is að taka höndum saman og koma með líkamsræktina heim í stofu til þín. Alls er um að ræða 10 þætti þar sem áherslan er lögð á fjölbreyttar æfingar til að styrkja líkama og sál. 

„Þetta eru fjölbreyttar æfingar fyrir konur og karla á öllum aldri sem vilja hreyfa sig, styrkja vöðvana, auka þolið og liðleikann og bæta heilsuna,“ segir Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar. 

Ágústa segir það vera mikilvægt fyrir alla að hreyfa sig, gjarnan daglega.

 „Til þess að halda líkamanum í góðu ástandi, stuðla að bættri heilsu, bæta ónæmiskerfið og ekki síst andlegu heilsuna.

Ég tel að við þurfum alveg sérstaklega á því að halda núna, í þessum faraldri sem hefur dregist svolítið mikið á langinn, lengur en flestir reiknuðu með. Það er alveg með ólíkindum hvað frískleg hreyfing getur haft góð áhrif á andlega líðan og gert okkur léttari bæði í skapi og léttari á okkur,“ segir Ágústa. 

Þættirnir munu birtast hér á mbl.is á mánudags-, miðvikudags-, og föstudagsmorgnum. Þátttakendur þurfa ekki að eiga neinn búnað til að framkvæma æfingarnar en þeir sem eiga lóð geta nýtt þau með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert