Tækin verða ekki komin í tæka tíð

Landspítali tekur við brjóstaskoðun um áramótin.
Landspítali tekur við brjóstaskoðun um áramótin. mbl.is

Landspítala vantar enn tæki til að taka við skimun brjósta sem hefur farið fram hjá Krabbameinsfélaginu til þessa. Forstöðumaður rannsóknaþjónustu Landspítala vonast þó til þess að spítalinn geti haldið þjónustunni samfelldri en spítalinn tekur við þeirri skimun um áramótin. 

„Við verðum ekki búin að fá tækin á þeim tíma en við erum í viðræðum við Krabbameinsfélagið um að festa kaup á hluta af þeim tækjum sem þar eru og síðan erum við búin að koma af stað útboði fyrir þau tæki sem við þurfum að kaupa til viðbótar,“ segir Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu Landspítala. 

Vonar að þjónustan verði samfelld

Hún heldur erindi um flutning skimunar og sérskoðana frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til Landspítala á bleiku málþingi um brjóstakrabbamein sem verður haldið síðdegis í dag. Málþinginu verður streymt í streymisveitu Krabbameinsfélagsins.

Verðið þið búin að fá tækin í tæka tíð? 

„Við tökum við skimun brjósta um áramótin en við verðum ekki búin að fá öll tækin á þeim tíma,“ segir Maríanna sem bætir því þó við að Landspítali leiti nú allra leiða til þess að geta haldið samfellu í þjónustunni. 

Er útlit fyrir að hún verði ekki samfelld?

„Það er ekki alveg skýrt á þessu augnabliki en ég bind mjög sterkar vonir við að það verði þannig,“ segir Maríanna. 

Væntir þess að athugasemdirnar verði teknar alvarlega

Lögmaður nokkurra kvenna skoðar nú bæði möguleg og staðfest mistök hjá Krabbameinsfélaginu í leghálsskimun. Þá eru nokkur mál komin á borð Landlæknis vegna þessa. Spurð hvort Landspítali muni læra af þeim mistökum sem sögð eru hafa átt sér stað hjá félaginu segir Maríanna: 

„Ég vænti þess að fólk taki mjög alvarlega þær athugasemdir sem hafa verið gerðar við leghálsskimun fram að þessu.“

Leghálsskimunin verður á vegum heilsugæslunnar en frumusýni verða greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. 

„Það verður svolítið annað verklag í leghálsskimunum frá áramótum. Hingað til hefur frumustrok verið fyrsta greining en það verður væntanlega breyting þar á,“ segir Maríanna. 

Mönnun áskorun, sérstaklega vegna Covid

Landspítali stefnir að því að geta ráðið starfsfólk sem starfar við brjóstarannsóknir hjá Krabbameinsfélaginu til Landspítala til þess að annast rannsóknir, að sögn Maríönnu. 

„Vandinn hefur aftur á móti alltaf verið að fá sérfræðilækna í brjóstamyndgreiningu til starfa. Við höfum þurft að hafa afleysingalækna að utan til viðbótar við þá lækna sem við þegar höfum til að anna starfseminni. Við erum bara að leggja upp plan núna varðandi þá mönnun en það er alltaf viss áskorun, sérstaklega í Covid,“ segir Maríanna. „Fólk á erfitt með að losa sig úr annarri vinnu og ferðatakmarkanir eru erfiður þáttur í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert