Vilja 48 þúsund króna kröfu fyrir Landsrétt

Garðsláttur að sumri.
Garðsláttur að sumri. mbl.is/Golli

Garðlist hefur óskað eftir því að mál, þar sem krafa upp á rúmar 48 þúsund krónur gegn húsfélagi, sem tapaðist í Héraðsdómi Reykjavíkur, verði tekið upp af Landsrétti. Beiðni þess efnis hefur verið send til Landsréttar. 

Forsaga málsins er sú að ágreiningur kom upp á milli Garðlistar og húsfélags að Tjarnarbóli 14 um hvort garðsláttur hefði verið inntur af hendi tvívegis í maí árið 2019. Töldu íbúar að þjónustan hefði ekki verið innt af hendi eða þá að hún hefði verið tilgangslaus og vildi ekki greiða kröfuna. Garðlist segist hins vegar hafa veitt þjónustuna líkt og fyrirtækið hafi gert frá árinu 2015. Stóð ágreiningurinn um kröfu upp á 48.662 krónur.  

Í tölvupósti frá Ómari R. Valmdimarssyni, lögmanni Garðlistar, segir að ástæða þess að málinu hafi verið skotið til Landsréttar sé sú að Garðlist telji dóminn hafa komist að rangri niðurstöðu og hann hafi með veigmiklum hætti horft fram hjá sönnunargögnum, sem hefðu leitt til gagnstæðrar niðurstöðu.

Í beiðninni er vísað til vitnaleiðslna þar sem m.a. kemur fram að íbúi hafi séð starfsmann Garðlistar keyra um grasflöt sameignarinnar. Í beiðninni segir m.a. að ekki hafi verið tekið tillit til þess í dómsniðurstöðu. 

Þá hafi ekki verið sýnt fram á það af húsfélaginu að slátturinn hafi verið ófullnægjandi. 

Vanti dómstól fyrir lægri upphæðir 

Ómar segir í samtali við mbl.is að hann telji að hér á landi vanti dómstól sem sinni kröfum um lægri upphæðir. „Það er í raun út i hött að mál af þessari upphæð þurfi að rata fyrir dómstóla og það væri heppilegra ef hér væri smákröfudómstóll eins og er víða erlendis. En þegar aðilar eiga kröfur á aðra sem eru tiltölulega lágar, þá eru ekki margir kostir í stöðunni. Ef þú ætlar að fara með málið fyrir úrskurðarnefnd neytendamála þá þarftu t.a.m. að sitja uppi með málskostnaðinn sjálfur, jafnvel þótt þú vinnir málið,“ segir Ómar. 

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður Garðlistar.
Ómar R. Valdimarsson, lögmaður Garðlistar.

Hann segir þó að Garðlist hafi íhugað að gera það í þessu máli. „Kröfuhafinn þarf að spyrja sig: Ef ég gef þetta eftir, hvað á ég þá líka að gefa eftir? Á maður að gefa allar kröfur sem innheimtast ekki og eru undir 100 þúsund krónum?“ veltir Ómar upp. 

Hann telur að ef slíkt myndi enda sem viðtekin venja myndi það ríða fyrirtækjum eins og Garðlist að fullu. Langflestar kröfur fyrirtækisins séu undir 100 þúsund krónum.  

Meint vanhæfi dómara fór fyrir Landsrétt

Við meðferð málsins sem var þingfest í nóvember á síðasta ári gerði Garðlist kröfu um vanhæfi dómara. Var það gert á þeirri forsendu að héraðsdómarinn Sigrún Guðmundsdóttir hafi tjáð lögmanni Garðlistar að henni fyndist málssóknin tilhæfulaus vegna þess hve lág stefnufjárhæðin væri. Er hún sögð hafa óskað þess að málið yrði fellt niður og aðilar leituðu sátta. Málið allt væri óafsakanlegt og hér væri verið að stofna til óþarfa kostnaðar fyrir málsaðila og að svona mál ættu ekki heima í réttarsal. 

Landsréttur.
Landsréttur. Hallur Már

Taldi Garðlist að með þessu hefði dómarinn þegar tekið afstöðu til málsins og að henni bæri að víkja. Sigrún sagði fyrir Landsrétti að hún hefði tjáð sig um málið en mótmælir því að hafa haft uppi þau orð sem lögmaður segir hafa fallið og hafnar því að hafa tekið afstöðu í málinu. Ákvað Landsréttur að ekki væri ástæða til að víkja Sigrúnu frá. Hann lét málskostnað niður falla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert