Hótel Sögu lokað

Hótel Sögu verður lokað frá og með næstu mánaðamótum en Ingibjörg Ólafsdóttir hótelstjóri segir að stjórnendur séu nauðbeygðir til að loka hótelinu.

Greint er frá málinu á vef Bændasamtakanna. Þau eiga bæði hótelið Bændahöllina, sem á fasteignina, og Hótel Sögu sem er rekstrarfélag hótelsins. 

Starfsemi Bændasamtakanna og önnur starfsemi ótengd hótelrekstrinum í húsinu helst óbreytt.

Í fréttinni á vef Bændasamtakanna segir að Hótel Saga hafi orðið fyrir gríðarlegum tekjusamdrætti vegna kórónuveirufaraldursins. Stjórnendur sjá ekki annan kost en að loka enda engin augljós merki um að straumur ferðamanna til Íslands muni aukast á næstu vikum og mánuðum.

„Síðustu sóttvarnaraðgerðir gera það að verkum að það er ekki lengur rekstragrundvöllur til að halda starfseminni gangandi. Hótel Saga er stórt hótel og það þarf að lágmarki 15 til 20 starfsmenn til að halda uppi allra nauðsynlegust þjónustu og tekjumöguleikar eins og staðan er í dag nánast engir,“ er haft eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur hótelstjóra.

Hótelið gengur nú í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu en Bændasamtökin leita nýrra hluthafa að rekstrarfélagi Hótel Sögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert