Fer yfir 35 m/s í hviðum

Það er víða hálka og hálkublettir. Myndin er úr safni …
Það er víða hálka og hálkublettir. Myndin er úr safni mbl.is. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi og er varað við snörpum vindhviðum við fjöll en vindhraðinn getur farið yfir 35 metra á sekúndu í verstu hviðum. 

„Allhvöss eða hvöss austanátt, sums staðar stormur syðst og víða dálítil rigning eða slydda, en hægari suðaustanvindur og eftir hádegi. Austanstrekkingur og væta í flestum landshlutum á morgun, en hægari suðlæg átt og birtir til á norðanverðu landinu um kvöldið.

Suðvestlæg átt með skúrum eða slydduéljum á laugardag, en bjart með köflum norðaustan til. Líkur á vaxandi norðanátt með rigningu austast um kvöldið. Á sunnudag má reikna með að hann leggist í norðan- eða norðvestanáttir með úrkomu í formi rigningar eða slyddu á norðurhelming landsins, en léttir til fyrir sunnan. Áfram milt í veðri víða um land að deginum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og gildir til klukkan 11. „Austan 15-25 m/s, hvassast austantil. Búist er við snörpum vindhviðum við fjöll, yfir 35 m/s, t.d. undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli. Þetta getur skapað varasöm akstursskilyrði, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Á Suðausturlandi gildir viðvörunin til klukkan 10. „Austan 15-23 m/s, hvassast í Öræfum. Búist er við snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s. Þetta getur skapað varasöm akstursskilyrði, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Hálka á Öxnadalsheiði og flughálka á Mývatnsöræfum

Hálka eða hálkublettir eru á nokkrum vegum, helst fjallvegum á Norðaustur- og Austurlandi. Hálkublettir eru á Steingrímsfjarðarheiði og hálka er á Öxnadalsheiði.  Flughálka er á Mývatnsöræfum, Dettifossvegi og á Biskupshálsi. Hálka eða hálkublettir eru víða til fjalla á Norðausturlandi en þæfingsfærð er á Hellisheiði eystri. Snjóþekja er á Fjarðarheiði og í Mjóafirði, annars víða hálkublettir á Austurlandi.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan 10-18 m/s, en 18-23 syðst. Víða slydda eða rigning með köflum, talsverð úrkoma um tíma á SA-landi og Austfjörðum. Snýst í suðaustan 8-15 seinni partinn og dregur úr vætu, fyrst syðst en rofar til fyrir norðan með kvöldinu.

Austlæg átt, 10-18 m/s og rigning eða slydda með köflum á morgun, hvassast á annesjum fyrir norðan, en hægari suðlæg átt og léttir til fyrir norðan um kvöldið. Hiti 2 til 10 stig, mildast við S-ströndina.

Á föstudag:
Sunnan og suðaustan 8-15 m/s, en norðaustan 5-10 á Vestfjörðum. Rigning víða um land, en styttir upp fyrir norðan síðdegis. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:
Suðlæg átt, 5-13 m/s og rigning með köflum, en líkur á vaxandi norðnátt með rigningu eða slyddu A-lands seinni partinn. Hiti 1 til 6 stig.

Á sunnudag:
Ákveðin norðvestlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en hægara og bjartviðri syðra og heldur kólnar í veðri.

Á mánudag:
Stíf vestan- og suðvestanátt og skúrir eða slydduél, en þurrt SA-til. Hiti nærri frostmarki.

Á þriðjudag:
Líklega norðvestanátt með slyddu eða rigningu fyrir norðan, en bjartviðri syðra og svalt í veðri.

Á miðvikudag:
Búast má við vaxandi suðvestanátt með rigningu og hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert