Finnst ríkisstjórnin svifasein

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist hafa skilning á hertum sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda, en þykir ríkisstjórnin ekki bregðast við fyrirsjáanlegum þrengingum í atvinnulífinu í tæka tíð.

„Ég held að á þessum tímapunkti hafi verið nauðsynlegt að gera eitthvað og ég geri í sjálfu sér ekki ágreining við þá leið, sem farin er,“ segir Logi í samtali við mbl.is um hertar sóttvarnaraðgerðir, sem ríkisstjórnin kynnti í dag. „Hins vegar hvílir sú skylda á stjórnvöldum, að þau séu tilbúin að mæta þeim áföllum sem viðskiptalífið og fólk lendir í vegna veirunnar. Að þau séu búin að laga og bæta þær aðgerðir, sem hefur verði gripið til hér frá 1. mars en hafa ekki skilað árangri.“

Logi segist líka spyrja hversu skynsamlegar sumar ráðstafanirnar séu. „Það sér hver maður í hendi sér, að veittingastaður, sem fær ekki að hafa nema tíu manns inni — þar af kannski einn að þjóna til borðs og annar að kokka og vaska upp — hann getur ekki borið sig. Þess vegna hefðu stjórnvöld fyrir löngu þurft að vera komin með einhverjar útfærslur fyrir þetta fólk.“

Fagnar tillögum Bjarna, en…

Hann telur viðleitni ríkistjórnarinnar til frekari efnahagsaðgerða ágæta svo langt sem hún nái. „Ég fagna því að Bjarni fjármálaráðherra talar nú um viðspyrnustyrki, en þetta er ríkisstjórn viðbragða. Það er eins og þau horfi aldrei örlítið fram í tímann og skapi mönnum sæmilegan fyrirsjáanleika.“

„En þó ég fagni nýjustu tillögum fjármálaráðherra í þessum efnum, þá hefði ég nú viljað sjá hann draga þær upp úr umslagi strax þegar stefndi í harðari aðgerðir. Þau gátu alveg reiknað með því að þar að kæmi og það má alveg ætlast til smá fyrirhyggju og hugsa fram til vors að minnsta kosti.“

Veiran óútreiknanleg en efnahaginn má reikna

Logi kveðst þó skilja að staðan sé hvorki einföld né auðleysanleg, raunin sé sú sama víðast hvar. „Við höfum séð löndin í kringum okkur, þar sem stjórnvöld hafa líka þurft að grípa til harðra aðgerða og slaka á á víxl. Líklega er þetta kvikindi of óútreiknanlegtt til þess að það sé hægt að gera annað.“

Aftur á móti megi reikna með einu og öðru í efnahagslífinu. „Atvinnulífið, sem við erum háð um að bera okkur sem samfélag, það er ekki hægt að kenna því um þessar aðstæður. Við þær kringumstæður verður ríkisvaldið að sýna styrk sinn og koma inn af miklu mynduglegri hætti.“

Hann minnir á að þar sé allt undir, stórt sem smátt. Að því þurfi öllu að huga. „Ég hef hlustað á fólk í ferðaþjónustu síðustu daga og þá kemur í ljós að þetta snertir litlu og meðalstóru fyirtækin einna verst. Þau ganga ekki að fyrirtgreiðslu í bönkum, og liggja ekki með varasjóði ef eitthvað út af bregður, en aðgerðirnar frá því í vor hafa miðast fyrst og fremst við að grípa stærstu og mikilvægustu fyrirtækin. Ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna það, en það hefði þurft að huga meira að hinu smáa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert