„Úthaldið ekki endalaust“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, við komuna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, við komuna í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði aðspurð eftir fund ríkisstjórnarinnar um frekari sóttvarnaraðgerðir að vissulega væru frekari fjárútlát ríkissjóðs íþyngjandi og að úthaldið væri ekki endalaust. Hún segir að gert sé ráð fyrir því tímabil veirufaraldursins sé hálfnað. Hins vegar séu forsendur í hagkerfinu fyrir því að viðspyrnan verði góð. 

„Augljóslega er úthaldið ekki endalaust. En staðan var góð fyrir þennan faraldur og það hefur gert það að verkum að við getum gert það sem við höfum verið að gera. Við erum auðvitað að velja þá stefnu að með því að styðja við atvinnulífið og almenning þá náum við hraðari  viðspyrnu,“ segir Katrín. 

Telur faraldurstímann hálfnaðan

Hún segir að stóra spurningamerkið snúi að því hvenær viðspyrnan geti hafist. „Ef við horfum á það sem talað er um út í heimi og spár um bóluefni ganga eftir þá er ekki ósanngjarnt að segja; við erum hálfnuð í ánni. Miðað við það held ég að sú stefna að þjóna vel við almenning og atvinnulíf þá mun þetta fara hratt og vel af stað,“ segir Katrín.

Lilja Alfreðsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir á fundinum í …
Lilja Alfreðsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reyna að hafa sviðsmyndina raunhæfa 

Spurð um það hvort sú sviðsmynd hafi verið sett upp ef ekki finnst bóluefni þá segir Katrín að svo sé. „En við reynum að hafa sviðsmyndina eins raunhæfa og hægt er og eins og hagkerfið er þá er ekki ólíklegt að við náum hraðri viðspyrnu,“ segir Katrín.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert