Ekki sjálfgefið að um mistök sé að ræða

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélags Íslands.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Skimun fyrir krabbameinum veitir ekki tryggingu gegn því að greinast með krabbamein. Ef kona sem hefur verið skimuð, greinist með krabbamein eða forstig þess er ekki sjálfgefið að um mistök hafi verið að ræða. Skimun fyrir leghálskrabbameinum hefur komið í veg fyrir hundruð dauðsfalla frá árinu 1964. Næmi með frumuskoðun til að finna hágráðu-forstigsbreytingar í leghálsi er um 95% hérlendis.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Krabbameinsfélags Íslands við fyrirspurn mbl.is. 

Málum átta kvenna sem telja sig, eða sem aðstandendur þeirra telja, hafa fengið ranga niðurstöðu úr skimun fyrir krabbameini hjá Krabbameinsfélagi Íslands, hafa verið tilkynnt til embættis landlæknis að því er lögmaður kvennanna greindi frá í samtali við mbl.is fyrir skemmstu. Þá eru þrjú skaðabótamál í farvatninu. 

„Mikilvægt er að árétta að skimun er hvorki gallalaus né trygging fyrir því að krabbamein eða forstig þeirra greinist. Eðli skimana er slíkt, að konur geta greinst með alvarleg eða langt gengin krabbamein í leghálsi og brjóstum þó þær mæti reglulega í skimun,“ er haft eftir Ágústi Inga Ágústssyni yfirlækni og sviðsstjóra leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins í svarinu. 

„Líkurnar á því eru hins vegar mun minni en hjá þeim sem ekki taka þátt. Skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum auk HPV-bólusetningar er besta forvörn sem völ er á og því skiptir miklu máli að konur nýti regluleg boð í skimun,“ segir Ágúst.

Ágúst Ingi Ágústsson yfirlæknir.
Ágúst Ingi Ágústsson yfirlæknir. Skjáskot/RÚV

95% næmi hérlendis

Í fyrra voru komur í brjóstaskimun 20.600 talsins og komur í leghálsskimun 24.300. Með skimun fyrir krabbameinum í leghálsi er hægt að greina forstig leghálskrabbameina og fjarlægja þau áður en þau þróast áfram. 

„Vel er þekkt að næmi skimunar til að finna forstigsbreytingar er ekki 100% og því veitir hún ekki tryggingu gegn því að konur veikist af leghálskrabbameini. Nýleg fjölþjóðleg samantekt á 15 rannsóknum sýndi að meðalnæmi leghálsskimunar með frumuskoðun til að finna hágráðu-forstigsbreytingar var um það bil 75%, þ.e. í heildina missti leitin af 25% hágráðubreytinga,“ segir í svari Krabbameinsfélagsins. 

Næmið er mjög misjafnt eftir löndum en það er 95% hérlendis, samkvæmt fyrrnefndri samantekt. 

„Margar hágráðubreytingar ganga til baka af sjálfu sér, en hluti þeirra þróast yfir í leghálskrabbamein og af og til kemur það fyrir að ein slík fer framhjá í skimuninni, því miður, þótt það gerist sjaldan á Íslandi miðað við mörg önnur lönd,“ er haft eftir Ingibjörgu Guðmundsdóttur, meinafræðingi og yfirlækni á frumurannsóknarstofu Leitarstöðvarinnar.

Í framhaldi af alvarlegu atviki sem varð á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins …
Í framhaldi af alvarlegu atviki sem varð á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hafa félaginu borist fjölmargar fyrirspurnir kvenna sem hafa áhyggjur af niðurstöðum skimana. mbl.is/Árni Sæberg

Missa af einu tilfelli hjá hverjum 2.500

Gera má ráð fyrir því að brjóstaskimun missi af einu krabbameinstilfelli að meðaltali hjá hverjum 2.500 konum sem mæta, skv. heilbrigðisþjónustu breska ríkisins. Þar í landi mæta konur á aldrinum 50 - 70 ára í brjóstaskimun en hér á landi er konum á aldrinum 40 - 69 ára boðið í reglubundna skimun. Vegna aldursbilsins getur verið að fjöldi krabbameina sem skimunin missir af geti verið örlítið hærri hér á landi, þar sem erfiðara getur verið að greina krabbamein hjá yngri konum.

„Sama gildir því um skimun fyrir brjóstakrabbameinum og leghálskrabbameinum að hún er ekki trygging gegn því að veikjast en nýleg norsk rannsókn bendir til að skimunin geti fækkað dauðsföllum af völdum sjúkdómsins um 20-30%,“ segir í svarinu. 

„Þrátt fyrir ávinning má ekki gleyma að skimun felur einnig í sér þá áhættu að vægar breytingar sem ekki hafa ífarandi vöxt finnist en leiða til meðhöndlunar. Breytingar sem annars hefðu hvorki komið í ljós eða valdið skaða. Þetta getur valdið bæði andlegum og líkamlegum afleiðingum sem einnig þarf að taka með í reikninginn,“ er haft eftir Magnúsi Baldvinssyni, yfirlækni á röntgendeild Leitarstöðvarinnar.

Tjá sig ekki um „órökstuddar fullyrðingar“

Í framhaldi af alvarlegu atviki sem varð á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hafa félaginu borist fjölmargar fyrirspurnir kvenna sem hafa áhyggjur af niðurstöðum skimana. Í fyrirspurn mbl.is var spurt sérstaklega um þau mál sem fyrrnefndur lögmaður er með á sínu borði. Í svarinu kemur fram að félagið geti ekki tjáð sig um einstök mál. „Félagið tjáir sig heldur ekki um órökstuddar fullyrðingar um starfsemi Leitarstöðvarinnar í fjölmiðlum,“ segir í svarinu. 

„Embætti landlæknis fær á ári hverju um 10 þúsund tilkynningar um óvænt atvik á heilbrigðisstofnunum. Starfsfólk Leitarstöðvar tilkynnti strax ofangreint atvik til embættisins og það er nú til skoðunar hjá embættinu. Krabbameinsfélagið og starfsfólk Leitarstöðvar vinnur í nánu samstarfi við starfsfólk embættisins.“

Frekari upplýsingar um ávinning og áhættu af skimunum má sjá á heimasíðu Krabbameinsfélagsins, www.krabb.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert