„Vel í stakk búnir til að búa til þetta nammi“

Kári Stefánsson
Kári Stefánsson Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar, segir að vitað hafi verið um nokkra hríð að bóluefnið sem sagt er gefa góða raun í baráttunni við Covid-19 væri á leiðinni. Flest bendi til þess að bóluefnið sé gott. Hann telur aðspurður að líf hér á landi gæti orðið eðlilegt upp úr miðju næsta ári. 

„Ég spáði því að við myndum fá bóluefni fyrir lok árs,“ segir Kári. „Þetta bóluefni hefur alltaf þótt feikilega lofandi,“ segir Kári um fregnir af bóluefni sem framleitt er af lyfjafyrirtækinu Pfizer og líftæknifyrirtækinu BioNTech. Hefur bóluefnið í 90% tilvika komið í veg fyrir Covid-19-smit í þriðja fasa lyfjaþróunarinnar. „Það þykir feikilega góður árangur, betri en árangurinn af flestum inflúensubóluefnum. Því er þetta afskaplega góð niðurstaða,“ segir Kári. 

Bóluefni sem geti kveðið faraldurinn í kútinn 

Kári segir að enn sem komið er sé ekki hægt að skoða rannsóknirnar sem liggja að baki þróun bóluefnisins. Hins vegar hafi óháður matshópur skoðað málið og komist að sömu niðurstöðu og fyrirtækið. „Mönnum finnst mjög líklegt að þetta komi allt til með að standast og þá er þetta bóluefni sem gæti kveðið þennan faraldur í kútinn,“ segir Kári. 

Fyrirtækið segist geta framleitt 50 milljón skammta á þessu ári og 1,3 milljarða skammta á næsta ári, en 1,3 milljarðar skammta duga fyrir 650 milljónir manna. Helgast það að sögn Kára af því að hver einstaklingur þarf tvo skammta af bóluefni. „Þeir virðast vel í stakk búnir til að búa til þetta nammi. Það er ekki spurning um það,“ segir Kári. Þá reikni hann með því að fleiri geti komið að framleiðslunni en Pfizer. Fyrir vikið á hann ekki von á að skortur verði á því í lengri tíma.  

Pfizer er annað tveggja fyrirtækja sem koma að þróun bóluefnisins.
Pfizer er annað tveggja fyrirtækja sem koma að þróun bóluefnisins. AFP

Hraustir þurfi að bíða 

Kári segist gera ráð fyrir því að menn verði ákafir að komast í bóluefnið en hann hefur ekki komið að því að reyna að tryggja Íslendingum aðgang að efninu. „Í Bandaríkjunum verður það fyrst gamalt fólk sem fær þetta og síðan heilbrigðisstarfsfólk. Síðan má gera ráð fyrir því að ýmis lönd muni berjast um þetta,“ segir Kári. 

Aðspurður segist Kári gera ráð fyrir því að þeir sem eru hraustir verði látnir mæta afgangi þegar kemur að útdeilingu bóluefnisins. „Hraustir ungir menn eins og ég og þú (blaðamaður) verðum látnir mæta afgangi. En því ber að halda til haga að bólusetningin gagnast einstaklingunum sem fá það en um leið samfélaginu í heild. Bólusetningin gagnast því einstaklingum númer eitt en fyrst og fremst er mikilvægt að hún verndar samfélagið,“ segir Kári. 

„Það verður fullt af þessu“ 

Aðspurður segir Kári flókið að geta sér til um það hversu marga skammta þurfti til að gera íslenskt samfélag öruggt. Við séum háð óvissuþáttum á borð við þá hvernig mál standa í löndunum í kringum okkur. Almennt sé þó talað um að 60 prósent vörn þurfi til að geta talað um hjarðónæmi. 

Fjölmörg bóluefni eru í þróun.
Fjölmörg bóluefni eru í þróun. AFP

Að sögn Kára eru tvö önnur bóluefni komin langt í framleiðsluferlinu. „Það verður fullt af þessu,“ segir Kári. 

Spurður hvort þetta muni ekki gera það að verkum að viðkomandi fyrirtæki verði óskaplega rík af sölu bóluefnis segir Kári svo ekki þurfa að vera. „Mér skilst á öllum að það sé samráð þessara fyrirtækja um að selja ekki bóluefnin á þann hátt að þau græði á þeim mikið. Frekar að litið verði á þetta sem framlag iðnaðarins til heimsins almennt. Menn þurfa ekki að engjast yfir þeim möguleika að lyfjafyrirtækin muni nota þetta til að ræna og rupla,“ segir Kári. 

Hvað heldur þú að langur tími líði þar til lífið snýst til eðlilegs horfs hér á landi? 

„Upp úr miðju næsta ári,“ segir Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert