Hittust allsberir í World Class

Aðalbjörn Tryggvason, Addi í Sólstöfum.
Aðalbjörn Tryggvason, Addi í Sólstöfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólstafir hafa starfað í aldarfjórðung og þótt á ýmsu hafi gengið hefur ekkert reynt eins ofboðslega á rokkbandið og brottrekstur Guðmundar Óla Pálmasonar trommuleikara í ársbyrjun 2015.

„Við Gummi erum æskuvinir. Ég þekki alla hans fjölskyldu og það er yndislegt fólk,“ segir Aðalbjörn Tryggvason, Addi, söngvari og gítarleikari Sólstafa. „Allt gekk vel framan af en fólk breytist og fyrir um tíu árum voru komnir brestir í samstarfið og vináttuna. Andinn í bandinu var orðinn brenglaður og skrýtinn og það var búið að stefna í þetta um tíma, að við létum hann fara. Lengi vel hugsaði maður: Við erum lið og látum þetta ganga! Þetta varð hins vegar alltaf ljótara og ljótara; ekki bara milli okkar Gumma, hinir tveir drógust inn í málið líka.“

Hann segir andrúmsloftið á Evróputúrnum haustið 2014, þegar þeir túruðu plötuna Óttu, hafa verið eitrað en þá voru menn fastir saman í rútu í mánuð. Enginn var að tala saman, enginn að skemmta sér. Frá Evrópu var flogið til austurstrandar Bandaríkjanna, þar sem við tók annar túr í mánuð. „Þar vorum við með sendibíl og þú getur rétt ímyndað þér hvernig stemningin var. Hefðum við komið heim með fullt af peningum hefði það verið annað mál en það var öðru nær; það er ekkert upp úr þessu að hafa peningalega. Þegar við komum heim rétt fyrir áramótin blasti við nýr túr eftir mánuð. Það hefði aldrei gengið.“

Addi átti ekki í neinum erjum við hina tvo, Svavar Austmann bassaleikara og Sæþór Maríus Sæþórsson gítarleikara, og þeir stóðu því frammi fyrir skýru vali: „Viljum við leggja bandið niður eða losa okkur við Gumma og halda áfram?“ Enginn vildi hætta, þannig að seinni kosturinn varð fyrir valinu.

Guðmundur tók tíðindunum ekki vel og höfðaði mál á hendur Adda. „Honum fannst hann eiga tilkall til nafnsins Sólstafir og eiga rétt á fébótum og kaus að fara í mál við mig í nafni fyrirtækis sem við áttum saman. Í reynd var ég því að fara í mál við sjálfan mig. Héraðsdómur vísaði málinu frá. Við reyndum að ná samkomulagi við Gumma en enginn vilji var til þess af hans hálfu.“

Finnst þér þetta ekki fyndið?

– Hafið þið talað saman síðan?

„Nei, en við hittumst einu sinni fyrir tilviljun, allsberir í búningsklefanum í World Class. Ég var að koma úr sturtu. Það eru fjögur hundruð skápar þarna, ég hef talið þá, en aðeins tveir menn, við æskuvinirnir, hlið við hlið. Ég klæddi mig í þögn en áður en ég fór gat ég ekki stillt mig um að spyrja: „Finnst þér þetta ekki fyndið?“ Þetta var súrrealískt augnablik, eins og atriði úr einhverri kvikmynd.“

Mikið hefur verið um málið fjallað á samfélagsmiðlum og sitt sýnist hverjum. Addi hefur þó ekki blandað sér í þá umræðu sjálfur enda ekki til neins að rífast við fólk á netinu.

„Auðvitað kom þetta við okkur. Allt hafði gengið vel, verið skemmtilegt og jákvætt. Við vorum heitt band upp úr 2010, partíljón frá Íslandi, með öðruvísi tónlist, hljóm og stíl, Fjara varð óvænt megahittari og Ótta gekk vel. Við vorum á frábærri bylgju og fólki fannst gaman að sjá okkur og djamma með okkur. Allt í einu vorum við hins vegar lentir í einhverjum aurstormi. Fólk tók afstöðu með eða á móti og allt skíðlogaði. Meðan sumir nenna ekki neikvæðni þá þrífast aðrir á henni. Mín afstaða er sú að aldrei sé hægt að gera öllum til geðs. Þess vegna höfum við bara haldið áfram að gera okkar tónlist og látið skoðanir annarra sem vind um eyru þjóta. Ég veit hvern mann ég hef að geyma og treysti mér til að haga mér og taka ákvarðanir. Það er erfitt að taka mark á fólki sem ekki hefur verið í hljómsveit, rétt eins og erfitt er fyrir fólk sem aldrei hefur verið gift að hafa skoðun á hjónabandi. Það að vera í rokkbandi er ekkert frábrugðið því að vera í hjónabandi; leggja þarf rækt við hvort tveggja til að það dafni. Það skilur heldur enginn við maka sinn eftir eitt rifrildi eða eina slæma helgi. Það þarf meira til.“

Ítarlega er rætt við Adda í Sólstöfum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, meðal annars um nýju plötuna, Endless Twilight of Codependent Love, þar sem leiðarstefið er meðvirkni. 

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert