1.585 látist í umferðinni frá 1915

Frá minningarathöfn um fórnarlömb umferðarslysa við þyrlupall Landspítalans 2018.
Frá minningarathöfn um fórnarlömb umferðarslysa við þyrlupall Landspítalans 2018. mbl.is/Hari

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er í dag, 15. nóvember. Í ár er minningardagurinn sniðinn að sérstökum aðstæðum í samfélaginu, en í stað minningarstundar við þyrlupall Landspítalans hefur staðið yfir árvekniátak í samfélaginu um umferðaröryggi frá því á föstudag. 

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem hafa látist í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni og ekki síst að færa starfsstéttum sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Minningarviðburðir verða haldnir um land allt og fjallað verður um mikilvæg málefni tengd umferðaröryggi, eftir því sem segir í tilkynningu. 

Fyrsta banaslysið skráð 1915

Einkennislag dagsins er lag KK, When I think of angels, í flutningi hans og Ellenar Kristjánsdóttur sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. 

Í kvöld klukkan 19 munu félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg og fleiri viðbragðsaðilar standa fyrir táknrænum minningarathöfnum um allt land í beinni vefútsendingu sem streymt verður frá hér.

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Að baki undirbúningi dagsins hér á landi standa Landsbjörg, Samgöngustofa og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti auk fjölda sjálfboðaliða. 

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hafa 1585 manns látist í umferðinni á Íslandi (fram að 1. nóvember 2020). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert