Berjast fyrir en ekki um lesendur

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur.
Ævar Þór Benediktsson rithöfundur. mbl.is/Hari

Bræðurnir Ævar Þór og Guðni Líndal Benediktssynir stinga sér á bólakaf í jólabókaflóðið, Ævar er með fjórar bækur á þessu ári og Guðni tvær. 

Ævar Þór situr ekki auðum höndum fremur en endranær og á dögunum kom út fjórða bókin eftir hann á þessu ári, Þín eigin undirdjúp, stór í sniðum eins og venjan er fyrir jólin. Í vor komu Hryllilega stuttar hrollvekjur og í haust Þín eigin saga: Risaeðlur og Þín eigin saga: Knúsípons. Tvær þær síðarnefndu heyra til flokki „lítilla afleggjara“, eins og höfundurinn kallar þá og eru ætlaðar þeim börnum sem ekki ráða enn við stórar og þykkar bækur eins og í Þín eigin-bókaflokknum og börnum af erlendum uppruna sem enn eru að ná tökum á íslenskunni en langar að vera með í umræðunni um þá undraheima. 

Guðni er með tvær bækur í farteskinu fyrir þessi jólin; þær eru Hundurinn með hattinn 2 og Bráðum Áðan. Sú fyrrnefnda er fyrir yngsta hóp lesenda og er hluti af bókaklúbbnum Ljósaseríunni en á þeim vettvangi koma út fjórar barnabækur á ári eftir íslenska höfunda. Bráðum Áðan er stærri í sniðum og ætluð ungmennum. 

Guðni Líndal Benediktsson rithöfundur.
Guðni Líndal Benediktsson rithöfundur. Ljósmynd/Lara Cappelli


Þurfa að skrifa skemmtilegar bækur

Sjaldan eða aldrei hefur verið mikilvægara að skrifa bækur fyrir ungmenni enda samkeppnin um athygli þeirra gríðarleg á tækniöld. „Það er miklu auðveldara að ýta bara á „play“ og liggja eins og skata. Ekkert við því að segja í sjálfu sér en það þýðir hins vegar að við rithöfundarnir þurfum að skrifa skemmtilegri bækur og vera duglegir að halda þeim að krökkunum sem valkosti. Bráðum Áðan er til dæmis sérhönnuð fyrir krakka sem alla jafna nenna ekki að lesa,“ segir Guðni.  

– Þið bræður skrifið fyrir sama hópinn. Er mikil samkeppni á milli ykkar?

„Það er engin leið að keppa við Ævar,“ svarar Guðni hlæjandi. „Við erum báðir að þvælast í ævintýrum og fantasíum en í mínum huga erum við ekki að berjast um lesendur; miklu frekar að berjast í sameiningu við að fá fleiri krakka til að lesa, eins og aðrir höfundar sem skrifa barna- og ungmennabækur. Öll höfum við þörf fyrir að skrifa fyrir börn til að halda lestraráhuga gangandi,“ svarar Guðni. 

Ævar Þór er að vonum þakklátur fyrir viðtökurnar sem bækur hans hafa fengið en segir það þó fyrst og fremst reka sig áfram hvað þetta sé skemmtilegt, bæði að fá hugmyndirnar og fylgja þeim eftir með skrifunum. „Ég er alltaf að skrifa fyrir tólf ára Ævar en líka 36 ára Ævar og í sameiningu finna þeir milliveg.“

Hann finnur ekki annað en að íslensk börn séu upp til hópa dugleg að lesa enda þótt alltaf megi gera betur. „Mér finnst alltaf betra að hvetja en letja og ef krökkum er endalaust sagt að þau séu ekki nógu dugleg að lesa þá dregur það úr þeim viljann. Mín tilfinning er sú að íslensk börn lesi mikið og njóti þess.“

Nánar er rætt við bræðurna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert