Laufabrauð sígilt fyrir jól

Nóg að snúast enda stórt verkefni að steikja og útbúa …
Nóg að snúast enda stórt verkefni að steikja og útbúa eina og hálfa milljón laufabrauðskaka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppskriftirnar eru sígildar og áþekkar þótt tilbrigðin við þær séu mörg. Í ár framleiðum við og steikjum laufabrauð í um tíu útgáfum og undir nokkrum vörumerkjum. Fólk er fastheldið á brauð og bragð og þeim óskum þarf að mæta,“ segir Pétur Sigurbjörn Pétursson, framleiðslustjóri hjá Ömmubakstri-Gæðabakstri sem einnig rekur Kristjánsbakarí á Akureyri. Þar hófst laufabrauðsgerðin strax í september og stendur fram á síðustu daga fyrir jól.

Í dunkum og boxum

Framleiðslan er komin í verslanir: laufabrauð í dunkum og bitar í boxum. Fleira sem minnir á jólin er raunar þegar komið í búðir, til dæmis klementínur, konfekt, kjöt ýmiss konar og fleira góðgæti. Norður í landi er laufabrauðshefðin sterk, svo sem í Þingeyjarsýslum og við Eyjafjörð. Forðum daga voru laufabrauðskökurnar raunar gjarnan kallaðar fátækrabrauð meðal Norðlendinga.

„Kúnstin liggur meðal annars í því hve þunnar kökurnar eru, sem fer að vísu eftir smekk hvers og eins. Einhvern tíma var sagt að væri úr svo þunnu bakað að þú gætir lesið Moggann í gegnum kökurnar væri baksturinn nánast fullkominn. Ég skal ekki segja, sitt sýnist hverjum. Svo ræður feitin eða tólgin sem kökurnar eru steiktar í alltaf nokkru um hvernig til tekst,“ segir Pétur.

Menning á landsvísu

Menning tengd laufabrauði nær til landsins alls og í mörgum fjölskyldum er siður að hittast í upphafi aðventu í laufabrauðsskurði. Fyrir marga markar það upphaf jólaundirbúnings. Margir vilja svo þegar að útskurðinum kemur hafa deigið tilbúið og kaupa því frosið deig til að spara sér tíma og fyrirhöfn, að sögn Péturs sem ætlar að hjá Ömmubakstri og Kristjánsbakaríi verði framleidd um ein og hálf milljón laufabrauðskaka fyrir þessi jól.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert