Andlát: Erlendur Haraldsson

Erlendur Haraldsson
Erlendur Haraldsson

Dr. Erlendur Haraldsson, prófessor emeritus, lést á Hrafnistu við Sléttuveg að kvöldi 22. nóvember, 89 ára.

Erlendur fæddist 3. nóvember 1931 á Völlum á Seltjarnarnesi. Foreldrar hans voru þau Anna Elimundardóttir húsmóðir og Haraldur Erlendsson verkamaður.

Að loknu stúdentsprófi frá MR árið 1954 stundaði Erlendur nám í sálfræði við háskóla í Freiburg og München í Þýskalandi 1964-1969. Hann lauk dr. phil.-gráðu frá Háskólanum í Freiburg árið 1972. Erlendur starfaði sem rannsóknarmaður í Bandaríkjunum og stundaði sérfræðinám í klínískri sálfræði við Virgínuháskóla 1970-71.

Erlendur var blaðamaður á Alþýðublaðinu 1960-1962 og starfaði sem sálfræðingur við American Society for Psychical Research í New York 1972-1974. Hann varð lektor við Háskóla Íslands 1974, dósent 1978 og prófessor 1974. Erlendur var talsmaður uppreisnarmanna Kúrda í Írak árin 1964-1969 meðan hann dvaldi í Þýskalandi og var varaforseti International Society Kurdistan 1965-1970.

Erlendur var mikill frumkvöðull á sviði dulsálfræði og rannsakaði mikið það sem kallað er dulræn fyrirbæri. Hann var mjög afkastamikill höfundur greina í dagblöðum og tímaritum, auk fræðigreina og bóka. Ritaskrá hans frá árunum 1960-2018 telur um 360 titla greina og bóka. Bækur Erlendar voru þýddar á 14 tungumál og hefur mjög mikið verið vitnað í fræðigreinar hans og bækur.

Á meðal íslenskra bóka hans eru Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan (1964), Þessa heims og annars (1978), Sýnir á dánarbeði (1979), Látnir í heimi lifenda (2005) og Indriði Indriðason, merkasti íslenski miðillinn (2019). Endurminningar Erlendar, Á vit hins ókunna, sem hann skrifaði ásamt Hafliða Helgasyni, komu út árið 2012.

Eftirlifandi sambýliskona Erlendar er Björg Jakobsdóttir, Mið-Austurlandafræðingur. Hann eignaðist tvö börn, Harald geðlækni, sem búsettur er ásamt fjölskyldu sinni á Íslandi, og Önnu Elísabetu verkfræðing, sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Þýskalandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert