Kristján uppfyllir ósk sauðfjárbænda

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að haldinn verði aukainnlausnarmarkaður með greiðslumark í sauðfé í desember 2020. Markaðurinn er haldinn að tillögu Landssamtaka sauðfjárbænda um að auka greiðslumark á markaði fyrir sauðfjárbændur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. 

„Aðgerðin miðar að því að jafna stöðu bænda innan kerfisins þar sem greiðslumarki er beint til hópa sem framleiða með minnstum opinberum stuðningi,“ segir í tilkynningunni. 

„Á markaðnum verður boðið til sölu greiðslumark sem innleyst var á árunum 2017 og 2018, samtals 4.757 ærgildi, auk þess sem heimilt verður að leggja fram sölutilboð með sama hætti og venjulega. Innlausnarverð/söluverð er núvirt and­virði beingreiðslna næstu tveggja almanaksára, kr. 12.764 pr. ærgildi.  

Forgangshópar eru tveir skv. ákvæðum 12. gr. reglugerðar nr. 1253/2019 um stuðning við sauðfjárrækt. Forgang að 60% af því sem er til úthlutunar eiga þeir framleiðendur sem eiga 200 kindur eða fleiri á haustskýrslu 2019 og hafa ásetningshlutfallið 1,6 eða hærra. Forgang að því sem þá er eftir hafa þeir framleiðendur sem eiga 100 kindur eða fleiri og hafa ásetningshlutfallið 1 eða hærra. Það greiðslumark sem ekki er úthlutað til fram­leið­enda í forgangshópum skal boðið öðrum umsækjendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert