Segja ekkert danskt varðskip nærri landinu

Þyrla á dönsku herskipi í Reykjavíkurhöfn.
Þyrla á dönsku herskipi í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er ekkert danskt varðskip í grennd við landið eins og staðan er í dag. Við erum með samning við Dani og þyrlur dönsku varðskipanna hafa gjarnan verið til taks fyrir Landhelgisgæsluna ef eftir því hefur verið leitað. Sá möguleiki er ekki fyrir hendi nú þar sem ekkert dansk varðskip er í nágrenni við Ísland,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. 

Ljóst er að sökum verkfalls flugvirkja verður engin þyrla til taks hér á landi í um tvo sólarhringa. Þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómstólaráðherra, var innt eftir viðbrögðum sagði forgangsverkefni að tryggja öryggi. Þá komi til greina að fá liðsauka frá Danmörku. 

Aðspurður segir Ásgeir það ekki vera í verkahring Landhelgisgæslunnar að óska eftir sérstakri björgunarþyrlu hingað til lands. Hins vegar sé Gæslan með samning sem kveði á um að hún geti leitað til danska heraflans. „Við fáum upplýsingar staðsetningar danskra varðskipa og vitum því hvar skipin eru stödd hverju sinni. Það er hins vegar ekkert slíkt skip í nágrenninu nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert