„Ég veit að hann gerði þetta ekki“

Ævar Annel Valgarðsson.
Ævar Annel Valgarðsson. Ljósmynd/Lögreglan

„Hann hringdi í mig fyrir þremur dögum en frá þeim tíma hef ég ekkert heyrt. Hann er bara einhvers staðar núna, en ég heyrði þegar hann hringdi að hann var alveg í lagi,“ segir Elínborg Jenný Ævarsdóttir, móðir Ævars Annels Valgarðssonar. 

Hans hefur verið leitað frá því á föstudag þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir honum. Ekkert hefur spurst til hans frá þeim tíma. Talið er að hann hafi tengsl við óhugn­an­leg of­beld­is­mynd­bönd sem birst hafa undanfarna daga. Mynd­bönd­in tengj­ast ým­ist of­beldi eða til­raun­um til íkveikju með bens­ín­sprengj­um. 

Vonar að lögreglan finni hann

Aðspurð segir Elínborg að Ævar hafi ekkert gert af sér. „Ég veit að hann gerði þetta ekki. Hann kveikti ekki í þessu húsi. Hann hefur sagt mér það og ég trúi honum. Ég vona bara að lögreglan finni hann og þá getur hann komið í heimsókn,“ segir hún.

Í myndböndum sem hafa verið í dreifingu má sjá Ævar auk annars manns. Sá maður er þjálfaður bardagakappi, en lögreglan handtók hann nú fyrir skömmu. Elínborg kveðst ánægð með það. „Ég sá í blöðunum að hann er kominn í fangelsi. Maður er feginn að heyra það.“

Ævar er 174 cm á hæð, grann­vax­inn og með dökkt hár. Þeir sem geta gefið upp­lýs­ing­ar um ferðir Ævars, eða vita hvar hann er niður­kom­inn, eru vin­sam­leg­ast beðnir um að hafa taf­ar­laust sam­band við lög­regl­una í síma 112. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert