Óbreytt atvinnuástand næstu mánuði

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Ljósmynd/Lögreglan

Útlit er fyrir að atvinnuleysi haldist óbreytt fyrstu mánuði næsta árs. Þetta sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Núverandi spá Vinnumálastofnunar kveður á um allt að 12,2% atvinnuleysi í desember. 

Sagði Unnur að engar forsendur vera fyrir því að ástandið kunni að batna á næstu mánuðum. Fari hins vegar svo að bóluefni verði tiltækt í ársbyrjun gæti ástandið batnað hratt. „Bóluefni hefur mikið að segja og ég held að það verði mikill skurðpunktur,“ sagði Unnur og bætti við að óvissuþættirnir séu þó margir. 

Ástandið mun líða hjá

„Við erum ekki farin að spá fram á vorið, en það eru margir óvissuættir. Meðan allt er óbreytt sé ég ekki atvinnuástandið batna enda eru engar forsendur fyrr en við sjáum fyrir endann á þessu. Með bóluefni verða væntingar miklar og allt fer af stað, ekki bara hér heldur í öllum heiminum,“ sagði Unnur.

Að hennar sögn mun atvinnuleysi eitthvað minnka með vorinu, en það sé þó árstíðabundin sveifla. Bóluefnið sé forsenda þess að fyrirtæki geti farið að ráða af fullum krafi að nýju. „Ég minni á þetta líður hjá eins og allt annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert