Borgin undirbýr byggingu fjöldaíþróttamannvirkja

Laugardalshöll. Þróttarar hafa haft aðstöðu þar til æfinga. Nú hillir …
Laugardalshöll. Þróttarar hafa haft aðstöðu þar til æfinga. Nú hillir undir að Þróttur og Ármann fái nýtt hús. mbl.is/Ómar Óskarsson

Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum 11 tillögur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra er varða m.a. undirbúning að uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík.

Einnig var samþykkt að skipa starfshóp til að fara yfir skipulags- og mannvirkjamál í Laugardalnum, endurbyggingar og hugsanlegar nýframkvæmdir og skoða vinnu vegna deiliskipulags Laugardalsins og heildarskipulag hans.

Reykjavíkurborg áformar að byggja íþróttamannvirki fyrir rúma 20 milljarða króna á næstu 10 árum. Tillögur borgarstjóra eru í samræmi við forgangsröðun framkvæmda sem samþykkt var í borgarráði sl. haust. Hún var byggð á tillögum stýrihóps um stefnu í íþróttamálum sem verði höfð til hliðsjónar við undirbúning 10 ára fjárfestingaráætlunar Reykjavíkurborgar. Stýrihópurinn raðaði 18 verkefnum og var kostnaður við hvert verkefni frá 200 milljónum upp í 2.500 milljónir.

Eftirfarandi tillögur borgarstjóra voru samþykktar í borgarráði í síðustu viku:

• Umhverfis- og skipulagssviði og íþrótta- og tómstundasviði verði falið að vinna að þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti í samráði við fimleikadeild ÍR, dansskóla með starfsemi í hverfinu, félög dansara og íbúaráð Breiðholts.

• Teknar verði upp viðræður við eigendur húsnæðis fimleikaaðstöðu Fylkis um hugsanlega stækkun hennar í Norðlingaholti sem yrði viðauki og framlenging á gildandi leigusamningi sem er til 2025. Gert verði ráð fyrir að borgin eignist húsið við lok leigutíma. Til samanburðar verði greindur kostnaður og ábati af því að reisa nýtt fimleikahús fyrir Fylki á starfssvæði félagsins í Lautinni, í samræmi við framtíðarsýn félagsins þar um. Viðræður og verkefnið verði undirbúin af íþrótta- og tómstundasviði í samráði við félagið.

• Gengið verði til viðræðna við KR um byggingu fjölnota knatthúss, sbr. nýtt hús ÍR í Mjódd, á grundvelli fyrri viljayfirlýsingar KR og borgarinnar. Kannaður verði vilji Seltjarnarness til samstarfs um verkefnið, sbr. samstarf Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um fimleikahús á Seltjarnarnesi.

• Íþrótta- og tómstundasviði, Íþróttabandalagi Reykjavíkur, skóla- og frístundasviði, Knattspyrnufélaginu Þrótti og Glímufélaginu Ármanni verði falið að fara yfir fyrirliggjandi þarfagreiningu og hugmyndir um nýtt þróttahús í Laugardal.

• Skoðaðir verði, með Fjölni og fleirum, valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi.

• Gengið verði til viðræðna við Knattspyrnufélagið Val um hugmyndir félagsins um frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins á Hlíðarenda. Gerð verði ítarleg þarfagreining, kostnaðar- og rekstraráætlun vegna hugmynda um ný mannvirki.

• Ákveðið hefur verið að Knattspyrnufélagið Víkingur muni þjóna Safamýrarhverfinu með íþróttastarf þegar Knattspyrnufélagið Fram hefur flutt starfsemi sína í Úlfarsárdal. Borgarráð hefur áður samþykkt að gerður verði samningur um atriði því tengd. Lagt er til að samhliða gerð þjónustusamnings við Víking vegna Safamýrarsvæðisins verði skoðaðar hugmyndir um endurnýjun og þróun íþróttamannvirkja í Víkinni, sem og eignarhald og rekstur þeirra mannvirkja.

• Teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaaðstöðu í Fossvogi og nýrri byggð í Skerjafirði.

• Gerð verði ábatagreining á valkostum varðandi áframhaldandi samstarf við Íþróttabandalag Reykjavíkur um rekstur Skautahallarinnar og stækkun hennar. Í kjölfarið verði tekin afstaða til mismunandi leiða og frekari samninga við Íþróttabandalag Reykjavíkur um áframhaldandi rekstur og stækkun Skautahallarinnar í Laugardal.

• Skipaður verði starfshópur um yfirferð á fyrirliggjandi þarfagreiningu vegna tennishúss í Laugardal með fulltrúum Íþróttabandalags Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur og tennisfélaga.

• Íþrótta- og tómstundasviði og Íþróttabandalagi Reykjavíkur verði falið að gera þarfagreiningu og setja fram framtíðarsýn um byggingu knatthúsa í borginni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert