Fækkun um milljón gesti á Þingvöllum

Mjög hefur dregið úr komum gesta í þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Mjög hefur dregið úr komum gesta í þjóðgarðinn á Þingvöllum. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Árið hefur verið erfitt í þjóðgarðinum á Þingvöllum vegna kórónuveirufaraldursins. Erlendir ferðamenn hafa varla sést, sértekjur hafa hrunið og grípa hefur þurft til mikilla uppsagna og breytinga í rekstri. Ljósu punktarnir hafa tengst uppbyggingu til framtíðar og góðri aðsókn Íslendinga yfir hásumarið og fram eftir hausti, ekki síst tengt hrygningu urriðans í Öxará og fegurð haustlitanna.

Mikið var lagt í undirbúning ársins á Þingvöllum og í tilefni af 90 ára afmæli þjóðgarðsins var öllum Íslendingum boðið á sýninguna Hjarta Íslands í gestastofunni á Hakinu. Faraldur, tímabundin lokun og fjöldatakmarkanir drógu úr heimsóknum og segir Einar Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður að afmælið hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá landsmönnum.

Síðustu tvö ár komu um 1,3 milljónir ferðamanna í þjóðgarðinn hvort ár, að langstærstum hluta erlendir ferðamenn eða yfir 90%. Í ár er útlit fyrir að alls verði gestafjöldinn í þjóðgarðinum um 330 þúsund og nemur fækkunin því tæplega einni milljón ferðamanna. Erfitt er að áætla hlutfall Íslendinga en varlega má ætla að hlutfall þeirra hafi hækkað í rúmlega 30%-40 prósent.

Hlutfall erlendra ferðamanna af heildinni skýrist af mánuðunum fyrir faraldurinn en árið byrjaði á svipaðan hátt og árin tvö á undan. Sama dag og landamærin opnuðust í sumar skiluðu ferðamenn sér til Þingvalla og því er fjöldinn í sumar að stórum hluta erlendir ferðamenn. Þrátt fyrir það hefur borið meira á Íslendingum í ár og segir Einar að margir hafi haft á orði að nú loksins geti þeir heimsótt Þingvelli og aðra vinsæla ferðamannastaði.

Yfir vetrartímann hafa erlendir ferðamenn haldið uppi heimsóknum síðustu ár, en þeir hafa varla sést á Þingvöllum í ár. Eftir að þriðja bylgja faraldursins skall á í haust hefur einnig stórlega dregið úr heimsóknum Íslendinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert