Tekist á um ábyrgð ráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Ljósmynd/mbl.is

Fyrstu umræða um frumvarp til laga um kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands lauk rétt í þessu í þingsal. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mælti fyrir frumvarpinu nú á fjórða tímanum. Ætlunin er að klára afgreiðslu frumvarpsins í dag og taka lögin þegar gildi við samþykkt.

Gekk frumvarpið til Allsherjar- og menntamálanefndar og hefst fundur þar strax að loknum þingfundi. Síðar verður settur nýr fundur og frumvarpið tekið til annarrar og svo þriðju umræðu.

Þingmenn stjórnarandstöðu segja stöðuna sem nú er uppi, gagnvart öryggi landsmanna þegar engin þyrla Landhelgisgæslunnar er tiltæk, vera á ábyrgð Áslaugar Örnu. 

Hefði átt að huga að þessu fyrr?

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar segir pólitíska ábyrgð á stöðunni sem nú er komin upp hjá Landhelgisgæslu Íslands liggja hjá dómsmálaráðherra.

Hún spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra hvort að hún hafi ekki haft samband við félag flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni áður en til lagasetningar kom. Áslaug kvaðst ekki hafa gert það enda ekki aðili að kjaradeilunum.

„Þetta er að gerast á vakt ráherra sjálfstæðisflokksins sem að fer með pólitíska ábyrgð á þessum málaflokki [...] En ráðherra sem stendur hér á föstudags síðdegi og er að boða lagasetningu vegna þess að engin þyrla er til taks hefði kannski mátt huga að því fyrr hvernig þennan vanda hefði átt að leysa,“ sagði Sigríður í andsvörum við ræðu ráðherra.

Finnur ráðherra ekki til ábyrgðar?

Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir þingmaður Pírata spurði hvort að ráherra finni ekki til ábyrgðar að hafa ekki búið betur um þyrlumál Landhelgisgæslunnar. Hún benti á að kaupum á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna hafi verið frestað og aðrar leigðar með meiri viðhaldsþörf. 

Áslaug Arna jánkaði því að kaupum á nýjum þyrlum hafi verið frestað um ár vegna efnahagsástandsins sem nú ríkir og þyrlur leigðar í staðinn. Áslaug segir þyrlurnar sem leigðar voru jafn góðar og þær sem til stóð að kaupa.

Hún segir að verkfallsréttur geti aldrei haft áhrif á öryggis- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar. 

Hvað felst í frumvarpinu?

Í frumvarpinu er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila og bann við vinnustöðvunum eða verkfalli. 

Lögin koma þó ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning án aðkomu gerðardóms.

Samningsaðilum er veittur frestur til 4. janúar 2021 til þess að ljúka samningum sín í milli. Takist það ekki skal skipaður gerðardómur sem skeri úr um kjaramál þeirra félagsmanna sem aðild eiga að Flugvirkjafélagi Íslands.

Skal gerðardómur ljúka störfum fyrir 17. febrúar 2021 hafi aðilar ekki gert með sér kjarasamning fyrir þann tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert