Ýmsar breytingar á framkvæmd kosninga

Ýmsar breytingar er að finna í frumvarpinu, sem koma á …
Ýmsar breytingar er að finna í frumvarpinu, sem koma á í stað fernra laga um framkvæmd kosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Frumvarp til kosningalaga hefur verið lagt fram á Alþingi. Frumvarpið er afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var um málið og samráðs allra flokka sem sæti eiga á Alþingi, en Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis er flutningsmaður. Með frumvarpinu verður fyrirkomulag þing-, sveitarstjórnar- og forsetakosninga auk þjóðaratkvæðagreiðslna samræmt, en í dag gilda um þær fern lög.

Meðal helstu nýmæla frumvarpsins eru:

Íslendingar erlendis haldi kosningarétti í 16 ár

Samkvæmt núgildandi lögum halda Íslendingar kosningarétti í átta ár eftir að flutt er úr landi. Eftir það geta þeir þó endurnýjað kosningaréttinn eins oft og þá lystir til fjögurra ára í senn, sæki þeir sérstaklega um.

Með breytingunni munu Íslendingar halda kosningarétti í 16 ár eftir að flutt er úr landi, en að svo búnu verður ekki hægt að endurnýja réttinn nema að flytja aftur til landsins.

Þetta er í greinargerð kölluð „veruleg rýmkun“ á kosningarétti Íslendinga erlendis, þótt ekki verði tekið undir það hér.

Forsetakosningum flýtt

Forsetakosningar verða samkvæmt frumvarpinu haldnar fyrsta laugardag í júní (en viku síðar ef sá dagur er um hvítasunnuhelgina). Hingað til hafa forsetakosningar verið haldnar síðasta laugardag í júní en í greinargerð með frumvarpinu segir að erfitt hafi reynst að fá fólk til starfa við kosningar um mitt sumar. Samkvæmt stjórnarskrá verða forsetakosningar að fara fram í júní eða júlí og var því ákveðið að fastsetja þær eins snemma og mögulegt er. „Ef tækifæri gefst til að breyta stjórnarskrá að þessu leyti væri hægt að flýta forsetakosningum enn frekar og halda þær t.d. í aprílmánuði.“ segir í greinargerð

Sveitarstjórnarkosningum flýtt

Sveitarstjórnarkosningar verða samkvæmt frumvarpinu haldnar annan laugardag í maí (en viku fyrr ef sá dagur er um hvítasunnuhelgina). Hingað til hafa sveitarstjórnarkosningar verið síðasta laugardag í maí.

Nýkjörnar sveitarstjórnir taka við 15 dögum eftir kjördag, þ.e. um miðjan júní samkvæmt lögum. Í greinargerð segir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi lýst þeim sjónarmiðum að óheppilegt sé að sveitarstjórnir taki við þá, þegar sumarleyfi margra eru við það að hefjast.

Atkvæði talin í hverju sveitarfélagi

Með breytingunni verða atkvæði talin í hverju sveitarfélagi fyrir sig, í stað þess að það sé gert á einum stað í hverju kjördæmi. Þannig fást mun nákvæmari upplýsingar um skiptingu atkvæða en samkvæmt núverandi kerfi.

Af persónuverndarsjónarmiðum verður talning í sveitarfélögum með færri en 100 manns á kjörskrá þó sameinuð fjölmennari sveitarfélögum.

Kjörstöðum lokað klukkutíma fyrr

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kjörstöðum skuli lokað eigi síðar en klukkan 21. Hingað til hafa kjörstaðir mátt vera opnir til klukkan 22. Í greinargerð er bent á að annars staðar á Norðurlöndum sé kjörstöðum lokað klukkan 20, en breytingin er að öðru leyti ekki rökstudd öðruvísi en að „ekki þykir ástæða til að kjörfundur standi til kl. 22 eins og nú er“.

Allir geti fengið aðstoð við kosningar

Allir sem þess óska munu geta fengið aðstoð við atkvæðagreiðslu, annaðhvort frá kjósanda sem þeir tilnefna sjálfir eða meðlimi úr kjörstjórn. Samkvæmt núgildandi lögum er þessi aðstoð aðeins veitt þeim sem geta ekki greitt atkvæði vegna sjónleysis eða að þeim sé „hönd ónothæf“.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist eftir að framboðum er skilað

Samkvæmt frumvarpinu skal utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjast „svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir“ en eigi síðar en 29 dögum fyrir kosningar. Hingað til hefur utankjörfundaratkvæðagreiðsla verið hafin áður en framboðslisti liggur fyrir, og hafa kjósendur þá þurft að greiða atkvæði með því að rita sjálfir nafn frambjóðanda eða flokks á kjörseðilinn.

Aðeins hægt að kjósa einu sinni

Kjósandi mun eingöngu geta greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum; annað hvort utan kjörfundar eða á kjörfundi. Áður var hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar en mæta einnig á kjörstað á kjördag, en við það ógiltist fyrra atkvæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert