Jólasveinar í streymi á nýopnuðu Þjóðminjasafni

Grýla og Leppalúði ætla að láta sjá sig í streymi …
Grýla og Leppalúði ætla að láta sjá sig í streymi sunnudaginn 6. desember kl. 14. Tónlistarkonan Ragnheiður Gröndal flytur nokkur lög á meðan beðið er eftir þeim. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið hefur nú verið opnað eftir lokanir vegna Covid-19. Fjölskyldur eru sérstaklega velkomnar á safnið en þar verður jóladagskrá. Í tilkynningu kemur fram að safnið bjóði upp á öruggt umhverfi þar sem það sé stórt og auðvelt að halda tveggja metra fjarlægð.

„Þjóðminjasafnið hefur um árabil tekið á móti fjölskyldum og kynnt rammíslenskar jólahefðir fyrir nýjum kynslóðum barna, m.a. með heimsóknum frá íslensku jólasveinunum, Grýlu og Leppalúða, en auk þess fær jólakötturinn sitt pláss í ár með sérstökum ratleik,“ segir í tilkynningunni. 

Hér má sjá Pottaskefil sem ætlar að skemmta börnunum í …
Hér má sjá Pottaskefil sem ætlar að skemmta börnunum í streymi. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Jólasveinar í streymi

Safnið verður opið alla daga nema mánudaga frá 10 til 17. Þar verða ýmsir viðburðir á dagskrá, t.d. mæta jólasveinar og foreldrar þeirra á safnið í streymi. 

„Jólasveinarnir þjóðlegu mæta í sínu fínasta pússi í Þjóðminjasafnið á slaginu kl. 11 frá og með 12. desember. Þeir klæðast fatnaði af gamla taginu og útskýra kenjar sínar og klæki fyrir börnunum. Í ljósi aðstæðna verða þessir viðburðir í streymi í gegnum YouTube rás safnsins. Það gæti því verið tilvalið fyrir yngri bekki grunnskóla og leikskólabörn að gera sér glaða stund og horfa saman á útsendingar og kynnast á þann hátt þessum skemmtilegu og hrekkjóttu sveinum,“ segir í tilkynningunni. 

Miklar sóttvarnaráðstafanir eru nú á safninu.

„Safnið er stórt og því auðvelt að virða tveggja metra regluna. Einnig er því skipt niður í nokkur sóttvarnarhólf og er leyfilegur fjöldi tíu manns í hverju hólfi. Grímuskylda er þar sem ekki hægt að tryggja tveggja metra regluna  og skylda í Safnbúðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert