Grínistinn Ari Eldjárn segir að Íslensku bjartsýnisverðlaunin sem hann hlaut í gær hvetji hann til að leita út fyrir þægindarammann og halda áfram að sinna nýsköpun.
„Þetta kom mér skemmtilega á óvart,“ segir Ari, spurður út í verðlaunin. „Þetta hvetur mann til að gera eitthvað sem er ekki alveg inni í þægindarammanum því mín vinna sem grínisti og uppistandari er rosalega mikil nýsköpun en hún getur staðnað mjög hratt.“
Hann segir skemmtilegt að vera kominn í hóp fjölbreyttrar flóru listamanna sem hefur hlotið bjartsýnisverðlaunin. Hildur Guðnadóttir kvikmyndatónskáld hlaut verðlaunin í fyrra en á meðal annarra sem hafa tekið við verðlaununum eru frænka Ara, rithöfundurinn Sigrún Eldjárn, Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður og Garðar Cortes, sem vann þau fyrstur manna árið 1981, á fæðingarári Ara.
Hann segir það mikla áskorun að búa til nýtt efni og að mikilvægt sé að hlutirnir verði ekki of þægilegir. Uppistandið hans sem var tekið upp og er nú til sýninga á Netflix hafi verið mikil áskorun og um leið nýsköpun því slíkt hafi hann aldrei prófað áður.
Aðspurður segist hann ekki vita hversu margir hafa horft á þáttinn hans á Netflix en veit að hann hefur fengið mikið áhorf úti um allan heim. Það geri honum starfið auðveldara, að þurfa ekki að breiða út fagnaðarerindið í eigin persónu eins og sakir standa. Hann hlakkar þó til að geta byrjað að ferðast aftur og troða upp.
Ari hefur fengið skilaboð frá yfir 70 löndum vegna þáttarins og kveðst vona að að minnsta kosti ein milljón manna hafi horft á hann. „Ég er mjög bjartsýnn þessa dagana á árstíð þegar það er venjulega ekki voðalega bjart yfir,“ segir hann hress.