Fólk eðlilega fljótt að gleyma

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikið álag var á bráðamóttökunni á föstudag og laugardag en það hefur verið heldur minna í gær og í dag. Aftur er fólk farið að leita á bráðamóttöku með vægari veikindi og slys eftir að slíkum komum fækkaði í kjölfar fréttatilkynningar frá Landspítala um langa bið á bráðamóttöku.

Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala sem hvetur fólk áfram til að leita til heilsugæslunnar eða á læknavaktina ef um er að ræða vægari veikindi eða slys. 

„Það var mjög mikið álag á föstudag og laugardag á bráðamóttöku en það er minna núna,“ segir Jón Magnús í samtali við mbl.is. 

„Það er aðeins um hálkuslys en ekki neitt mjög mikið og svo eru þetta bara almenn blönduð veikindi.“ 

Komum vegna vægari veikinda farið að fjölga aftur

Síðastliðinn miðvikudag sendi Landspítali frá sér tilkynningu þar sem vakin var athygli á langri bið á bráðamóttöku í Fossvogi. Þá var fólki bent á að leita frekar á heilsugæslu eða læknavakt væri um að ræða vægari veikindi eða slys. 

Jón Magnús segir að fólk hafi tekið við sér í um tvo daga og mun færri leitað á bráðamóttöku vegna vægari áverka eða veikinda. Fólk sé þó fljótt að gleyma. 

„Fólk brást mjög vel við þeirri beiðni okkar að leita frekar á heilsugæsluna og læknavaktina með vægari slys og veikindi en því er svo sem aðeins farið að fjölga aftur. Fólk bregst mjög vel við þessu í einn til tvo daga en svo gleymist þetta eðlilega og fólk leitar aftur á þann stað sem það er vant,“ segir Jón Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert