Ekki skrýtnari tímasetning en hver önnur

„Þetta er bara eðlilegur hluti af því sem við höfum …
„Þetta er bara eðlilegur hluti af því sem við höfum margrætt og hófst með þessu markmiði sem sett var í stjórnarsáttmála,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um söluferlið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist styðja áform um sölu á á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka. Hún segir tímasetninguna nú ekki skrýtnari en einhverja aðra og markmiðið „ekkert óskynsamlegra en það var þegar það var sett“.

Eins og áður hef­ur komið fram hef­ur Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra fall­ist á til­lögu Banka­sýslu rík­is­ins um að und­ir­bún­ing­ur verði haf­inn að sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka. 

Frétt af mbl.is

„Þetta er auðvitað bara hluti af stjórnarsáttmálanum, að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Þetta er í stjórnarsáttmálanum vegna þess að enginn þessara flokka [Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar] telur skynsamlegt að ríkið eigi jafn stóran hluta af fjármálakerfinu og raun ber vitni,“ segir Katrín.

Ekki óskynsamlegra markmið en þegar það var sett

Ríkissjóður stendur illa vegna kórónuveirufaraldursins og er hallinn mikill. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt tímasetningu söluferlisins og sagt að hún sé furðuleg þegar litið sé til stöðu ríkissjóðs. Katrín segir það af og frá. 

„Mér finnst þetta ekkert endilega skrýtnari tímasetning en hver önnur. Við erum bara á þeim stað núna að við erum áfram að vinna að þeim markmiðum sem við settum og ég held að þetta markmið sé ekkert óskynsamlegra en það var þegar það var sett.“

Þá segir Katrín að ýmislegt hafi verið gert til þess að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

„Það hefur verið unnin hvítbók um endurskoðun fjármálakerfisins, það er búið að leggja fram lagafrumvörp sem eru byggð á þeirri vinnu, meðal annars frumvarp sem nú er inni í þinginu varðandi varnarlínu um fjárfestingabankastarfsemi gagnvart viðskiptastarfsemi. Eigendastefnu ríkisins hefur verið breytt, sú stefna hefur verið mörkuð að Landsbankinn skuli vera áfram í eigu ríkisins.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir í samtali við mbl.is að Framsóknarmenn styddu söluferlið. Því er útlit fyrir að einhugur sé um málið innan ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert