Ferðaklúbburinn 4x4 segir sig úr Landvernd

Ein ástæða úrsagnarinnar er stefna Landverndar varðandi Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði.
Ein ástæða úrsagnarinnar er stefna Landverndar varðandi Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/RAX

Stjórn Ferðaklúbbsins 4x4 hefur ákveðið að hætta öllum stuðningi við Landvernd og segja sig úr félaginu. Ástæðan er stefna Landverndar sem er sögð ganga þvert gegn hagsmunum Ferðaklúbbsins 4x4.

Þetta kemur fram í bréfi sem send var stjórn Landverndar í gær, 13. janúar. Þar segir að stefna Landverndar undanfarin ár hafi verið öfgakennd og markast af harðlínu sem hafi farið langt út fyrir svið náttúruverndar. Óskað var eftir því að nafn Ferðaklúbbsins 4x4 yrði fjarlægt af lista yfir félagsaðila Landverndar.

Stefna Landverndar hafi gengið of langt

„Ástæða uppsagnarinnar er stefna Landverndar sem hefur gengið of langt í öllum sínum gjörðum og gengið þvert gegn hagsmunum Ferðaklúbbsins 4x4. Í þessu sambandi er einnig bent á yfirlýsingu Landverndar vegna Vonarskarðsins en þar er stefna Landverndar sú að loka skuli ökuleið um örfoka sanda fyrir umferð og á sú stefna Landverndar ekkert skylt með náttúruvernd,“ segir í bréfinu sem Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4, ritar undir.

„Stefna Landverndar undanfarin ár hefur verið öfgakennd og markast af harðlínu sem farið hefur langt út fyrir svið náttúruverndar að okkar mati. Því hefur stjórn Ferðaklúbbsins 4x4 ákveðið að vegna stefnu Landverndar gagnvart málefnum tengt hagsmunum njótenda og notenda á hálendi Íslands, að segja sig úr félaginu og hætta öllum stuðningi við það. Einnig segjum við okkur úr öllum nefndum og óskum eftir því að nafn okkar verði fjarlægt sem félagsaðila innan samtakanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert