Líneik Anna sækist eftir efsta sætinu

Líneik Anna Sævarsdóttir.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður býður sig fram í 1. sæti framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Þetta kemur í tilkynningu.

Hún hefur verið alþingismaður Norðausturkjördæmis á árunum 2013-2016 og 2017-2021, eftir að hafa starfað að sveitarstjórnarmálum frá 1998.

Líneik Anna á heima á Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð þar sem hún hefur búið í aldarfjórðung, hún er uppalin á Fljótsdalshéraði en hefur auk þess búið um tíma á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi. Hún er líffræðingur með kennsluréttindi og hefur lengst af starfað við fræðslumál og stjórnun; við kennslu, verkefnastjórn og sem skólastjóri á Fáskrúðsfirði.

Líneik Anna er gift Magnúsi Ásgrímssyni og eiga þau fjögur börn á aldrinum 20-31 árs, auk tveggja barnabarna.

Á Alþingi hefur hún starfað í allsherjar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og  í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.

Í Norðausturkjördæmi fer fram póstkosning og munu valdagar standa frá 1. mars til og með 31. mars 2021. Kosið verður um sex efstu sætin á framboðslistanum. Kjörskrá er lokað 30 dögum fyrir valdag póstkosningarinnar eða laugardaginn 30. janúar 2021. Framboðsfrestur rennur út sunnudaginn 14. febrúar klukkan 12 á hádegi, 15 dögum fyrir valdag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert