Helgi gefur kost á sér í 2.-3. sæti

Helgi Héðinsson
Helgi Héðinsson

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps, hyggst bjóða sig fram á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, og sækist hann þar eftir 2. til 3. sæti. Í tilkynningu sem Helgi sendi á fjölmiðla segir hann meginástæðu framboðsins vera þá að hann hafi óbilandi trú á þeirri vegferð sem Framsóknarflokkurinn hefur verið á, sér í lagi á líðandi kjörtímabili. 

„Meginástæða þess að ég gef kost á mér nú er óbilandi trú mín á þeirri vegferð sem Framsóknarflokkurinn hefur verið á, sér í lagi á líðandi kjörtímabili. Vegferð samvinnu, uppbyggingar og umbóta sem knúin er áfram af fólki með hugsjónir. Mér líður eins og ég geti lagt þeim málstað lið, en ekki síður að þar sé vettvangur góðra verka sem ég vil fylgja fast eftir,“ segir í fréttatilkynningu sem Helgi sendir frá sér vegna framboðsins. 

Helgi segir í tilkynningunni að hann hafi undanfarin ár unnið af krafti sem oddviti Skútustaðahrepps. „Þar hef ég í góðum hópi fólks starfað eftir hugmyndafræði sem ég er ákaflega stoltur af. Hugmyndafræðin byggir á því að styrkja stoðir samfélagsins með hamingju og vellíðan fólksins að leiðarljósi. Leiðirnar að hamingjunni eru æði mismunandi og að mörgu þarf að huga sem ég tíunda ekki að fullu hér,“ segir Helgi m.a. í tilkynningunni. 

„Ég hef verið svo lánsamur að hafa haft tækifæri til að byggja mér traustan grunn með fjölskylduna mér við hlið. Síðustu 15 ár hef ég byggt upp rekstur á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit í ferðaþjónustu, fiskvinnslu og við sauðfjárbúskap. Ég hef menntað mig og lokið meistaraprófi í viðskiptafræði auk MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Ég hef fengið tækifæri til að rækta leiðtogann á ýmsum sviðum, þar á meðal í handboltanum á Selfossi og í Mosfellsbænum, hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, við kennslu í Háskóla Íslands og sem formaður veiðifélags Mývatns.“

„Umfram allt er ég ungur, jákvæður og bjartsýnn. Fullur af krafti til góðra verka. Nú legg ég allt á borðið. Hugmyndafræðina, karakterinn og bakgrunninn og óska eftir stuðningi ykkar,“ segir Helgi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert