Borgarráð samþykkir nýbyggingar í Furugerði

Tölvugerð mynd af áformuðum byggingum við Furugerði 23, séð frá …
Tölvugerð mynd af áformuðum byggingum við Furugerði 23, séð frá Bústaðavegi. Teikning/Beka

Borgarráð hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina við Furugerði 23, en það var gert með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Ákvörðunina rökstuddi meirihlutinn með því að með þessu mætti byggja 30 íbúðir á lóð sem lægi að Bústaðavegi og lengi hefði staðið til að byggja upp, enda í anda stefnu um þéttingu byggðar. Hún lægi vel við hjóla- og almenningssamgöngum, en uppfylla mætti viðmiðunargildi fyrir hljóðstig með mótvægisaðgerðum. Þá hefði húsbyggjanda verið leiðbeint um hvernig mætti bæta úr bílastæðaskorti, en íbúar sem í hverfinu segja hörgul á bílastæðum fyrir.

Byggingamagn yrði of mikið

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðust fyrir sitt leyti ekki geta stutt málið í ljósi eindreginnar andstöðu í nágrenninu. Uppbyggingin myndi auk þess auka umferð og hraðakstur í hverfinu.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins benti auk þess á að íbúar hefðu áhyggjur af skemmdum á húsum sínum, þegar sprengt yrði fyrir bílakjallara, enda grunnt niður á klöpp. Helsta umkvörtunin væri þó sú að byggingamagn á reitnum yrði alltof mikið, margfalt á við gildandi aðalskipulag á reit, sem í aðalskipulagi er sagt vera „að mestu fullbyggt og fastmótað“.

Málið gengur nú til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert