Fjórðungur mála fékk samþykki

Rétt rúmlega fjórðungur af þeim málum sem bárust Hæstarétti sem áfrýjunarleyfi eða kæruleyfi á síðasta ári voru samþykkt, en samtals barst dómstólnum 139 beiðnir á árinu. Fyrir voru 13 óafgreidd mál og því samtals 152 mál sem lágu fyrir dómstólnum á árinu. Kveðnir voru upp 38 dómar á árinu.

Hlutfall samþykktra mála var nokkuð jafnt á milli áfrýjunarleyfa í sakamálum og í einkamálum, eða á milli 28% og 29%. Mestur fjöldi innsendra áfrýjunarleyfa var þó í einkamálum, en þar voru 23 mál samþykkt á árinu á meðan 57 beiðnum var hafnað. Í sakamálunum var samþykkt að taka 7 mál til afgreiðslu en 18 hafnað. Þegar kemur að kæruleyfum voru 3 beiðnir samþykktar en 21 beiðni hafnað. Í lok árs voru samtals 23 mál óafgreidd. Frá þessu er greint í ársskýrslu Hæstaréttar.

Hlutverki Hæstaréttar var breytt í árslok ársins 2017, en frá stofnun árið 1920 hafði dómstóllinn bæði starfað sem áfrýjunardómstóll og fordæmisgefandi dómstóll. Í ársbyrjun 2018, eftir að Landsréttur hóf störf og tók við sem áfrýjunardómstóll, var hlutverk Hæstaréttar aðeins sem fordæmisgefandi dómstóll.

Fram kemur í ársskýrslunni að um 1.300 gestir komi í venjulegu árferði sem gestir í húsnæði réttarins. Er þar horft til þeirra sem hlusta á málflutning, sem eru viðstaddir dómsuppsögu, skoða húsnæði réttarins eða koma í heimsókn í skipulögðum hópum. Ekki er horft til starfsmanna, málflytjenda eða þeirra sem eiga erindi í afgreiðslu réttarins. Á síðasta ári var hins vegar talsvert minna um gesti, enda setti faraldurinn talsvert strik í reikninginn þegar kom að starfsemi Hæstaréttar, líkt og annarra dómstóla. Voru gestir í fyrra aðeins 315.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert