Boða til verkfalls vegna „ólögmætra“ uppsagna

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. mbl.is/Hari

Flugmenn flugfélagsins Bláfugls, sem eiga aðild að Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), hafa boðað til ótímabundins verkfalls frá 1. febrúar. Verkfallsboðun var samþykkt samhljóða meðal flugmannanna.

Í lok síðasta árs sagði Bláfugl upp öllum ellefu flugmönnum sínum, sem starfa samkvæmt kjarasamningum Félags íslenskra atvinnuflugmanna, en uppsagnarfrestur er út mars. Hyggst félagið framvegis aðeins semja við „sjálfstætt starfandi“ flugmenn, þ.e. verktaka. 

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir í samtali við mbl.is að uppsagnirnar hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Kjarasamningar við flugmennina hafi verið lausir og fimm fundir þegar verið haldnir milli samninganefndar FÍA og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Bláfugls, þegar uppsagnirnar bárust. „Það var ekkert sem gaf tilefni til þess að fara í svona ráðstafanir, fyrir utan ólögmæti þeirra,“ segir Jón Þór.

Í yfirlýsingu sem Alþýðusamband Íslands sendi frá sér í vikunni segir að með framgöngu sinni vegi Bláfugl að grundvallarréttindum stéttarfélaga og þar með launafólki á Íslandi enda sé atvinnurekendum óheimilt að reyna að hafa áhrif á vinnudeilur eða stéttarfélagsaðild með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíkt. Þá sé Bláfugli ekki heimilt að eiga viðskipti við starfsmannaleigur sem ekki sinna lögbundnum skyldum sínum.

Jón Þór tekur undir þetta. Eftir að framkvæmdastjóri félagsins lýsti því yfir að uppsagnir yrðu ekki dregnar til baka, segir Jón Þór að FÍA hafi verið nauðugur kostur einn að boða til verkfalls, sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum sem fyrr segir.  Þá sækir félagið stuðning til systursamtaka erlendis, meðal annars Alþjóðaflugmannasambandsins (IFALPA). Segir Jón Þór að slíkur stuðningur geti falist í samúðarverkföllum til að mynda að neita að afgreiða vélar Bláfugls eða fylla á eldsneyti þeirra.

Þrátt fyrir uppsagnirnar og verkfallsboðun eru viðræður milli Bláfugls og FÍA enn í gangi hjá ríkissáttasemjara, en næsti fundur verður haldinn á mánudag klukkan 15.

Þrátt fyrir uppsagnir hefur verið boðað til samningafundar hjá ríkissáttasemjara …
Þrátt fyrir uppsagnir hefur verið boðað til samningafundar hjá ríkissáttasemjara á mánudag. mbl.is/Golli

Eftirlitsaðilar brugðist

Þegar eru um 40 verktakar starfandi hjá Bláfugli í gegnum áhafnarleigu í Hollandi, en Jón Þór segir að hún sé ekki skráð hjá Vinnumálastofnun eins og lög geri ráð fyrir. 

En séu aðgerðirnar ólöglegar, ættu ekki eftirlitsstofnanir að grípa inn í?

„Já manni fyndist nú að eftirlitsaðilar eins og Ríkisskattstjóri, Vinnumálastofnun og Samgöngustofa ættu að grípa inn í og rækja sitt lögbundna hlutverk,“ segir Jón Þór. „Við höfum rætt við Vinnumálastofnun, en við vitum náttúrulega að það tekur stjórnkerfið oft smá tíma að bregðast við, en við vonum að það verði í tæka tíð.“

Í nýju frumvarpi félagsmálaráðherra til starfskjaralaga, sem leggja á fram í mánuðinum, er stefnt að því að taka harðar á þeim málum þar sem vinnuveitendur greiða ekki laun samkvæmt íslenskum kjarasamningi með eflingu valdheimilda og eftifylgni eftirlitsstofnana.

Jón Þór hefur ekki séð frumvarpið, enda ekki komið fram, en þó haft af því spurnir. Hann segist vonast til þess að það verði til þess að tryggja að spilað verði eftir sömu leikreglum. „Þetta er líka ósanngjörn staða sem verið er að bjóða öðrum fyrirtækjum upp á,“ segir hann og vísar til þeirra fyrirtækja sem greiða laun samkvæmt kjarasamningi.

Þá segir hann málið mun stærra en svo að þetta varði bara flugmenn. „Það skiptir engu máli hvar þú vinnur, ef stjórnvöld og samfélagið ætla að samþykkja það að sum fyrirtæki geti bara sagt upp öllu sínu starfsfólki vegna þess að það er á kjarasamningum og ráða inn sjálfstætt starfandi á mun lakari kjörum, þá erum við komin á einhvern allt annan stað sem samfélag.“

Alþjóðlegt vandamál

Í yfirlýsingu sem samgönguráðherrar átta Evrópusambandsríkja, þeirra á meðal Danmerkur, Frakklands og Hollands, undirrituðu nýverið er sjónum beint að þeim breytingum sem orðið hafa á fluggeiranum síðasta árið vegna kórónuveirufaraldursins.

Lýsa ráðherrarnir áhyggjum sínum af því að „óhefðbundin ráðningarform“ svo sem starfsmannaleigur, sjálfstæðar ráðningar og ráðningar í gegnum önnur ríki séu að færast í vöxt. Það skapi vandamál á sviði vinnuréttar- og skattalöggjafar auk þess að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem hlíta reglum.

Hvetja ráðherrarnir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að innleiða reglur, sem lagðar hafa verið til af hagsmunasamtökum, og eiga að jafna stöðu fyrirtækja og koma í veg fyrir félagsleg undirboð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert