Snjóflóð féll í Skagafirði

Smiðsgerði situr undir hlíðum Kolbeinsstaðahnjúka.
Smiðsgerði situr undir hlíðum Kolbeinsstaðahnjúka. Kort/map.is

Snjóflóð féll í austanverðum Skagafirði skammt frá bænum Smiðsgerði undir Kolbeinsstaðahnjúkum.

Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða hjá Veðurstofunni, segir að flóðið hafi sennilega fallið snemma í morgun eða í nótt.

Flóðið stöðvaðist um 250 metrum frá bænum en á leiðinni hreif það með sér tréskúr sem honum tilheyrði. Er það eina tjónið sem vitað er til að orðið hafi af flóðinu.

Óttast að flóð hafi fallið víða

Jón Árni Friðjónsson, sem býr á bænum, segist í samtali við mbl.is ekki hafa náð að skoða aðstæður. Skafrenningur hefur verið, dimmt og lítið skyggni.

„Ég óttast að það hafi fallið flóð ansi víða í hlíðinni núna. En það hefur alla vega farið einhver spýja hérna niður og tekið þennan bárujárnsskúr, sem var nú ekki ýkja merkileg bygging, svolítið hér fyrir innan bæinn,“ segir Jón Árni.

Aðspurður segir hann skúrinn sem flóðið tók með sér hafa staðið þar í áratugi. Sjálfur segist hann ekkert óttast í íbúðarhúsinu sjálfu, sem stendur fjær hlíðinni.

Smiðsgerði árið 1998. Mynd úr safni Mats Wibe Lund.
Smiðsgerði árið 1998. Mynd úr safni Mats Wibe Lund. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

„Skítaveður og mikið fannfergi“

„Það er tún á milli, sem skiptir svolitlu máli. Íbúðarhúsið stendur í skjóli af öðrum húsum og svolítið utar,“ segir Jón Árni.

Þegar birta tekur að nýju býst hann allt eins við að í ljós komi fleiri flóð sem hafi fallið, með tjóni á girðingum til að mynda.

„Það er búið að vera skítaveður og mikið fannfergi. Það er ekki óalgengt að það falli snjóflóð úr þessum fjöllum, svona á heildina litið, þetta er nú langur fjallgarður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert