Bensínlaus í blindflugi

Reynir Ragnarsson hefur komist í hann krappan margoft á lífsleiðinni …
Reynir Ragnarsson hefur komist í hann krappan margoft á lífsleiðinni en alltaf sloppið með skrekkinn. Þessi tæplega níræði töffari kallar ekki allt ömmu sína. mbl.is/Ásdís

Leiðin lá austur í Vík í Mýrdal til fundar við Reyni Ragnarsson, ævintýramann með meiru. Hann er reffilegur karl, á þrjú ár í nírætt en er sprækur og heilsuhraustur og enn með blik í auga. Reynir er í óðaönn að klára úr skyrdollu þegar blaðamann ber að garði. Hann hellir vel af rjóma yfir skyrið og býður upp á kaffi. Við færum okkur svo yfir í betri stofu þar sem Reynir kemur sér vel fyrir í góðum grænum „Lazy boy“-stól. Þar er gott að rifja upp sögur, en af þeim á Reynir nóg. Hann hefur marga fjöruna sopið og stundum í bókstaflegri merkingu, en ævintýrin sem Reynir hefur lent í í lofti, á láði og legi eru ófá. Eins og kötturinn virðist Reynir eiga sér níu líf og er líklega búinn með þau allnokkur.

Langaði að veiða hval

Sem ungur maður var Reynir óhræddur við að prófa nýja hluti.

„Ég var gefinn fyrir ævintýri og við tókum okkur saman níu strákar og keyptum okkur lítinn hraðbát sem við flengdumst á um allan sjó. Mér datt svo eitt sinn í hug að fara með fjölskylduna til Vestmannaeyja á bátnum. Á bakaleiðinni þegar ég var kominn langleiðina að ströndinni sjáum við hvali. Uggarnir stóðu hátt upp úr sjónum. Þeir voru þar kyrrir og rólegir og ég sigldi að þeim til að athuga hvort þeir væru nokkuð dauðir. Það kom upp í mér einhver veiðináttúra og mig langaði að reyna að ná einum. Þetta var nú ótrúleg vitleysa, en ég var með band sem ég ætlaði að kasta yfir sporðinn og svo ætlaði ég að reyna að taka hann í eftirdragi í land,“ segir hann og skellihlær. 

Reynir er hér með börnin sín Möggu, Kristínu, Ásu og …
Reynir er hér með börnin sín Möggu, Kristínu, Ásu og Gutta endur fyrir löngu. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég var með konuna og þrjú börn í bátnum. En það gerðist ekki annað en að þeir létu sig hverfa ofan í hafið, en hefðu auðveldlega getað velt bátnum. En ég missti af veiðinni, sem betur fer,“ segir hann og brosir.

Með töskur fullar af sjó

Í annað sinn ákvað Reynir að koma fjölskyldunni til Færeyja og hugðist sigla með hana út í færeyskan línubát sem var skammt undan ströndinni.

„Krakkarnir voru þá orðnir stálpaðri. Frændi þeirra var skipstjóri og ætlaði að sigla með þau til Færeyja. Þennan dag var svolítið brim þannig að ég ákvað að fara frá Reynisfjörunni. Aldan þar gat verið sterk. Þegar kom lag ýttum við á flot og ég hoppa um borð og set í gang,“ segir Reynir og segir þá að splitti í skrúfunni hafi gefið sig.

„Þannig að skrúfan snerist ekki. Við vorum stopp þarna en það byggist allt á því að komast á skriði út. Á næsta andartaki kemur alda og kastar okkur upp og á hvolf. Ég lenti utan við bátinn en Magga og Denni undir honum. Ég gríp strax í lunninguna og þau skríða undan. Hræðslan var ekki meiri í Möggu en svo að hún sá töskuna sína fljóta í burtu og rauk á eftir henni og sótti áður en hún kom sér upp á strönd,“ segir hann og brosir.

„Við vorum öll auðvitað holdvot.“

Reynir rauk þá til Víkur og náði í annan mótor og gerð var önnur tilraun sem gekk vel.

Og allir komnir í þurr föt?

„Nei, nei, þau fóru bara í blautu fötunum. Með töskurnar fullar af sjó,“ segir hann og hlær dátt.

Alltaf á vakt

„Á þeim tíma var hér aðeins einn lögreglumaður í hálfu starfi og hann var búinn að segja upp. Ég sótti um í bríaríi, þótt ég væri kominn nálægt fimmtugu, og fékk starfið. Ég fór svo í lögregluskólann tvær annir og var svo í lögreglunni í tuttugu ár. Helminginn af þeim tíma var ég eini fastráðni lögreglumaðurinn í sýslunni, en hafði mér til aðstoðar héraðslögreglumenn sem ég gat kallað út og valið þá mér stærri og sterkari menn. Þetta var rólegt svæði en þó svoleiðis að ég var á vakt allan sólarhringinn. Það var hringt jafnt á nóttu sem degi, vegna óhappa og annars. Það var orðið svoleiðis að ég svaf í skyrtunni og hoppaði svo í buxur þegar kom útkall. Ég hvíldi mig svo bara þegar ég gat. Það var meira en nóg að gera og oft var maður mjög þreyttur,“ segir hann og segist hafa þurft að fara á vettvang slysa og óhappa á vegunum sem voru þá malarvegir, auk þess að mæta á staði þar sem erjur og fyllirí voru í gangi.

„Erfiðust var óvissan þegar maður var á leið í útkall þegar það var bílvelta eða stórslys. Þá var maður með hnút í maganum. Þessi ófyrirsjáanleiki var erfiður.“

Flugdella sem ekki lagaðist

Á svipuðum tíma og hann tekur við sem lögreglumaður stungu félagar hans upp á því að kaupa saman flugvél sem auglýst var til sölu. Reynir hafði nefnilega tekið einkaflugmannsprófið þegar hann var bústjóri í Krýsuvík tveimur áratugum áður.

Reynir bregður á leik við litlu vélina sína sem hann …
Reynir bregður á leik við litlu vélina sína sem hann átti í fjóra áratugi en hann lagði flugmannsskirteinið á hilluna í fyrra, þá 86 ára. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hafði haldið flugskirteininu við að mestu í þennan tíma. Ég keypti þá með þeim vélina, en enginn þeirra hafði réttindi en þeir hugðust læra. Þannig var ég alltaf fenginn í flug, enda alltaf með flugdellu sem ekki lagaðist þarna. Það var nú heilt ævintýri í kringum flugið. Ég var oft að fljúga með fólk til og frá Eyjum með fullu starfi í lögreglunni. Eitt leiddi af öðru, án þess að ég stjórnaði atburðarásinni. Það var læknir á Klaustri sem bað mig um að fljúga sjúkraflug til Reykjavíkur og ég gat ekki neitað því og eftir það fer ég fjölmörg sjúkraflug á þessari litlu rellu, en tók þá hliðarsætið úr,“ segir Reynir.

Bensínið búið á flugi

Lentir þú í einhverjum hremmingum í fluginu?

„Ég hef sloppið við öll slys en hef lent í smá veseni. Eitt skipti var gos nýbyrjað í Vatnajökli; hafði byrjað daginn áður. Jón Ársæll var þá með þáttinn Ísland í dag og vildi fljúga yfir með myndatökumanninn Dúa Landmark. Ég flýg svo með þá og þá er skýjabakki sunnan við jökulinn og ég fer meðfram honum, en þá var kominn skýjabakki yfir jöklinum. Ég var í brasi með að komast nógu hátt og þarna var niðurstreymi. Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun að ég náði það hátt að komast yfir skýin. Þá sáum við gosmökkinn stíga upp úr skýjunum, en sáum ekki niður á jökulinn. Þeir mynduðu þetta og það fór góður tími í það og ég flaug þarna marga hringi. Á meðan er alltaf þessi skýjabakki að færast lengra norður og ég flýg í norður til að reyna að fljúga undir hann. Þegar ég ætla suður var alveg lokað. Ég var að reyna að finna glufu en það var alls staðar lokað og ég búinn að eyða heilmiklu bensíni. Ég varð að fljúga blindflug suður eftir. Það voru ekki blindflugstæki í þessari vél. Ég flaug eftir kompásnum og klifra þarna upp í 7.000 fet í svartaþoku og sé ekki neitt. Svo fór að koma ísing á vélina,“ segir hann og hlær.

„Ég lækkaði mig um 1.000 fet en þorði ekki neðar, svo ég yrði ekki nærri fjöllum. Svo sjáum við allt í einu gat niður og ég hringsóla niður gatið og sé að við erum við upptök Skaftár. Til öryggis ákvað ég að fylgja Skaftánni en á kafla er hún í gljúfri. Þar var svo lágskýjað að ég varð að vera í gljúfrinu og þeir félagar voru að benda mér á kletta sem ég þyrfti að passa mig á. Þegar ég kem úr gljúfrinu er albjart þar fyrir framan og ég óskaplega ánægður og léttur,“ segir Reynir sem segist hafa stefnt í átt að Kirkjubæjarklaustri þar sem þeir myndu lenda.

„Þá allt í einu kemur púff-hljóð í vélina; hún missti úr slag og ég náttúrlega hrökk við. Ég ákvað að hækka flugið og vera yfir veginum ef eitthvað skyldi koma fyrir. Stuttu seinna drepur hún alveg á sér. Það var mjög lítið bensín á henni en mælirinn sýndi samt að það væri smá eftir. En hún stoppaði og ég gat ekkert gert nema að svífa, vélin smálækkar niður eftir og ég ætlaði að lenda á veginum og var nokkur öruggur að ég gæti það. En svo þegar ég er kominn niður undir veg hittist það þannig á að þar er akkúrat háspennulína yfir. Og pípuhlið og girðing. Ég er kominn niður að veginum og reisi hana aðeins við, sem maður gerir til að hægja á og lenda. Þá hrekkur hún allt í einu í gang með fullri orku og ég rýk upp og yfir háspennulínuna, sem ég hafði ætlað undir. Svo þegar ég er kominn í nokkra hæð fer hún aftur að hökta. Það var eins og slegið inn í mig að ég kæmist alla leið. Ég sá fyrir mér bensínið í tanknum og vissi að það væru fjögur gallon af bensíni sem ekki væri hægt að ná, en þegar ég beitti henni upp þá flýtur bensínið aftast í tankinn. En þá þurfti ég að fljúga henni með nefið uppi og velta henni til að ná bensínlögginni,“ segir hann og hlær.

„Hún var að hrökkva í gang og drepa á sér með alls konar sprengingum og látum alla leið til Klausturs. Þegar ég kem svo að flugvellinum sé ég að ég er í allt of mikilli hæð þar og var að yfirskjóta brautina. Þá gerði ég það sem orustuflugmenn gera; ég lagði hana á hliðina og lét hana falla niður, slippa sem kallað er. Ég gerði það þar til hún var komin í rétta hæð og lenti henni svo. Ég held að þeir hafi orðið svolítið hræddir þegar þeir fundu að hún var að falla út á hlið,“ segir hann.

„Vélin malaði eins og köttur þegar við komum niður. Þegar þeir stigu út úr vélinni voru þeir svo máttlausir í fótunum að þeir féllu á grúfu og kysstu jörðina, eins og páfinn.“

Varstu aldrei hræddur í þessari flugferð?

„Ég var ekki hræddur en ég held að ég hafi beðið guð að hjálpa mér mörgum sinnum í huganum,“ segir hann og hlær dátt.

Skall til jarðar og brákaði hrygg

Löngu áður en Reynir eignaðist sína fyrstu vél rakst hann á auglýsingu í blaði þar sem flugdreki var til sölu.

„Þetta var eins og skutla og mér datt í hug að það gæti verið gaman að leika sér með þetta. Það varð úr að ég pantaði svona flugdreka frá Bandaríkjunum og hann var keyrður austur í stranga á toppnum á bíl. Það kunni auðvitað enginn á þetta og við settum hann saman eftir teikningu. Svo hljóp ég fram af næsta hól og reyndi að svífa eitthvað á þessu en það gekk nú afskaplega brösuglega fyrst. Það var lítið svif í honum, og ég byrjaði í litlum brekkum en sá svo að ég yrði að fara fram af fjalli til að svífa. Ég fór upp á Háfell og lét mig vaða fram af,“ segir hann og hlær.

„Ég sveif svo niður en það var ekki betra en það að ég náði engu flugi heldur sveif bara niður. Svo þegar ég var búinn að eiga hann í nokkra mánuði var eitt af börnunum mínum að fermast uppi á Reynisbrekku og það komu gestir. Það var gott veður og ég og frændi minn fórum að spá í hvort ekki væri bara hægt að draga mig á loft, eins og venjulegan flugdreka. Við fórum út á Mýrdalssand og strengdum línu milli flugdrekans og bílsins og ég var dreginn á loft. Það gekk ágætlega og ég sveif og hélt hæð á eftir bílnum. Fermingarveislan horfði á og hafði gaman af. Svo morguninn eftir erum við frændur að spjalla og ræddum hvort ekki væri eins hægt að láta bara vindinn lyfta honum upp. Ég ákvað að prófa og við hnýttum annan endann á skotlínu í drekann og hinn í endann í ónýtri dráttarvél. Ég festi mig við drekann og reisti hann upp á móti vindinum. Þarna var oft misvinda og stundum kom vindgustur og þá náði ég að lyftast aðeins upp. Ég sá að þetta var nú ekkert sniðugt og ætlaði að fara að losa mig frá drekanum. Þá kemur feikna-vindhviða og hann bara rýkur upp eins og þota en þegar ég er kominn langt upp eins og bandið leyfði slitnar það. Ég næ honum ekki niður að framan til að svífa niður, hann var svo reistur á leiðinni upp. Ég var að rembast við þetta en á meðan var hann á fullri ferð niður til jarðar. Svo bara skellur hann aftur á bak niður og ég heyrði að það brast eitthvað í bakinu á mér,“ segir Reynir sem bað krakkana, sem horfðu upp á slysið, að hreyfa ekki við sér.

„Ég bað fólk að taka hurð af fjárhúsinu og mér var lyft varlega upp á hana og svoleiðis var ég borinn inn í hús. Læknirinn kom og ég var sendur suður með sjúkrabíl og það reyndust þrír hryggjarliðir vera brákaðir. Ég lá svo á spítala og svo heima í mánuð. Ég slapp bara virkilega vel. Ég hefði getað lamast,“ segir Reynir sem reyndi þó að laga flugdrekann og prófaði aðeins aftur annan dreka.

„Síðan hef ég ekkert snert á þessu, nema sem farþegi. Í vængflugi. Það var gaman.“

Forsjónin greip í taumana

Eftir að Reynir hætti hjá lögreglunni og fór á eftirlaun hefur hann sinnt ýmsum störfum og áhugamálum.

„En nú er ég hættur að fljúga og búinn að leggja inn skírteinið mitt. Það var bara í fyrravetur, í kófinu. Ég flaug því þar til ég var 86 ára og þá hafði ég flogið síðan ég var tvítugur. Sextíu og sex ár á flugi og búinn að reka þessa sömu litlu vél í yfir fjörutíu ár,“ segir hann.

„Ég veit ekki hvort ég á að segja þér frá því, hvernig minn flugrekstur endaði,“ segir hann og hlær.

Blaðamaður verður auðvitað forvitinn og hvetur hann til að leysa frá skjóðunni.

„Í fyrravetur ætlaði ég upp á jökul í góðu veðri. Það hafði snjóað og það var skafl fyrir utan flugskýlið. Vélin hafði verið treg í gang; köld. Ég hafði gert það áður að setja hana í gang inni í skýlinu til að þurfa ekki að draga hana inn aftur ef hún færi ekki í gang. Ég var búinn að binda band í stélið og í bílinn og dró hana aftur á bak út úr skýlinu í hægaganginum. Ég gat ekki dregið hana nema rétt út fyrir dyr vegna skaflsins og ætlaði svo að beygja vélinni fyrir skaflinn. Ég leysi bandið og keyri bílinn handan við hornið og hringi til Eyja til að plana flugið og gefa þeim upplýsingar. Mér verður svo litið fyrir hornið og þá er þar engin flugvél,“ segir hann og skellihlær.  

„Þá var hún komin inn aftur. Hún hafði lullað sjálf inn í hægagangi, keyrði á tjaldvagn og skrúfan kengbeygðist. Ég var alltaf vanur að setja hana í handbremsu, en hafði gleymt því þarna. Ég var búinn að kvíða fyrir því lengi að hætta að fljúga en þarna sá ég bara að forsjónin var að segja mér að þarna væri nóg komið. Ég hef svo oft lent í því í gegnum lífstíðina að eitthvað hafi gripið inn í og forðað mér frá ýmsu eða leiðbeint mér, það sem ég kalla forsjónina. Þannig að ég gat ekki annað en tekið mark á þessu og hætti alveg sáttur. Engin eftirsjá,“ segir Reynir og segir vélina núna komna á safn í Skógum, enda er hún orðin yfir hálfrar aldar gömul þó að hún hafi verið í góðu flughæfu standi.

„Þar fer vel um hana.“

Vill sigla með ferðamenn

Fyrir mörgum árum keyptu Reynir og sonur hans hjólabáta og notuðu þá í byrjun til fiskveiða og síðar til að fara með ferðamenn í útsýnistúra.

„Þá voru engir útlendingar eins og núna, þetta voru bara Íslendingar. Þetta varð mjög vinsælt en það var siglt út að dröngum eða að Dyrhólaey og í gegnum gatið,“ segir Reynir sem enn á ný hyggst snúa sér að siglingum með ferðamenn sem koma vonandi í sumar.

Reynir vill fara að sigla með ferðamenn í sumar og …
Reynir vill fara að sigla með ferðamenn í sumar og lét flytja inn tvo hjólabáta. mbl.is/Ásdís

Tíminn líður hratt í stofunni hjá Reyni, enda er hann afburðaskemmtilegur sögumaður og hefur lent í bæði lífsháska og fjölmörgum ævintýrum á langri ævi. Sögurnar eru efni í heila bók, en sú bók verður að bíða betri tíma. Eftir að hafa hlustað agndofa á Reyni er ekki laust við að maður telji víst að hann eigi sér níu líf, svo oft hefði getað farið verr.

„Já, sumir segja það. Mér finnst svo oft að einhver hafi verið í handleiðslu með mér.“

Lesa má um fleiri ævintýri Reynis í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Hægt er að lesa það í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert