Ótímabært að spá í frekari tilslakanir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur ekki ástæðu til þess að fara að lofa einhverjum tilslökunum á sóttvarnaaðgerðum hér innanlands. Enn þá sé of skammur tími síðan slakað var á síðast til að hægt sé að meta hvort frekari tilslakanir séu ráðlegar. Hann deilir áhyggjum Víðis Reynissonar, sem sagðist í gær hafa áhyggjur af því að færri mæti nú í sýnatöku en verið hefur. Sýnataka sé grunnforsenda góðs árangurs í sóttvörnum.

„Ég held ekki,“ segir Þórólfur spurður að því hvort hagstæðar smittölur undanfarinna daga gefi tilefni til tilslakana hér innanlands. Á miðvikudag verða tvær vikur liðnar frá því síðast var slakað á sóttvarnaaðgerðum.

Þeir sem venja komur sínar á öldurhús landsins verða að …
Þeir sem venja komur sínar á öldurhús landsins verða að vera þolinmóðir áfram, ef marka má orð sóttvarnalæknis. AFP

„Það er enn bara rétt rúm vika síðan núgildandi reglugerð tók gildi og við höfum sagt áður að það verði að bíða í um tvær vikur til þess að sjá hversu vel þessar aðgerðir ganga. Við þurfum ekki að flýta okkur neitt. Ég minni á að það er enn töluverður fjöldi sem greinist á landamærum og þar greinast einstaklingar sem veikjast jafnvel illa og þurfa inn á sjúkrahús og annað.“

En heldurðu þá að komi til tilslakana áður en núgildandi reglugerð rennur sitt skeið þann 17. febrúar?

„Ég held að það sé bara ekki tímabært að ræða það akkúrat núna. Við þurfum að fá betri yfirsýn yfir stöðuna og meta út frá því hvað taki við.“

Deilir áhyggjum Víðis

Þórólfur segist taka undir með Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni sem sagði í gær að hann hefði áhyggjur af því að lágar smittölur undanfarinna daga gætu verið „svikalogn“.

„Ég held að lágar smittölur ættu að vera okkur hvatning í að halda áfram því sem stuðlar að góðum árangri hérna innanlands. Það mæta nú færri í sýnatöku en verið hefur, eins og Víðir benti á í gær. Það að margir mæti í sýnatöku er algjört frumatriði í því að hér fáist góð yfirsýn yfir þennan faraldur.“

Erum, höfum verið og verðum áfram í viðbragðsstöðu

Í Noregi, Danmörku og fleiri löndum í kringum Ísland keppast stjórnvöld nú við að stemma stigu við útbreiðslu breska afbrigðis kórónuveirunnar, sem sagt er vera allt að 70% meira smitandi en hefðbundið afbrigði veirunnar. Þórólfur segir að Íslendingar séu í viðbragðsstöðu.

„Já, við erum í viðbragðsstöðu og höfum auðvitað verið það síðan í sumar þegar breytt fyrirkomulag á landamærunum var tekið upp. Við höfum náð að halda úti um 400 veirustofnum á landamærum og varna því að þau valdi skaða innanlands. Það hafa bara örfáir stofnar sloppið hérna í gegn og valdið annarri og þriðju bylgju.“

En breska afbrigðið hefur ekkert greinst innanlands eða náð að dreifa sér þar?

„Nei, við erum ekki að sjá neina dreifingu innanlands.“

Þórólfur segist ekki vita nákvæmlega hvernig komufarþegar hér á landi skiptast en þó séu flestir með íslenska kennitölu, eins og verið hefur. Lítið sé um ferðamennsku og því séu þeir sem hingað koma flestir Íslendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert