Stórt flóð fyrir ofan Eskifjörð

Flóðið féll úr Harðskafa. Það telst vera að stærð 4,5, …
Flóðið féll úr Harðskafa. Það telst vera að stærð 4,5, en stöðvaðist áður en það nálgaðist byggð. Kort/Google

Stórt snjóflóð féll fyrir ofan Eskifjörð í morgun. Annað minna flóð féll svo um hádegisbilið austan við álverið Reyðarfirði. Bæði flóðin voru utan byggðar og segir snjóflóðasérfræðingur á snjóflóðavakt Veðurstofunnar að ekki hafi verið hætta fyrir íbúa eða byggð. Á vef Veðurstofunnar er fyrra flóðið sagt vera 3,5 að stærð.

Óliver Hilmarsson, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofunni, segir við mbl.is að flóðið hafi fallið úr fjallinu Harðskafa ofan byggðarinnar, í raun beint fyrir ofan Norðfjarðargöng. Það hafi verið breitt og mikið flekaflóð sem hafi náð að fara niður af stallinum fyrir ofan bæinn og aðeins þar niður eftir. Hins vegar sé miklu minni halli undir stallinum og flóðið því stöðvast þar án þess að það ógnaði byggð.

„Með stærri flóðum sem við höfum skráð á þessu svæði“

Segir Óliver flóðið hafa verið mjög stórt. „Þetta er með stærri flóðum sem við höfum skráð á þessu svæði,“ segir hann, en mjög mikið hefur snjóað á þessu svæði síðasta sólarhringinn. Hins vegar er veðrið orðið mun betra núna og sólin farin að skína og var það einmitt líkleg ástæða þess að seinna flóðið féll að sögn Ólivers. Segir hann að þegar sólin hafi farið að skína á fjallshlíðina austan við álverið í Reyðarfirði hafi það sett lítið flóð af stað.

„Það gefur vísbendingar um að þetta sé veikt þarna og óstöðug snjóalög,“ segir Óliver, en hann segir þó ekki búist við miklum náttúrulegum flóðum úr þessu á svæðinu. Hins vegar bendir hann á að þeir sem séu á ferð, hvort sem það er á vélsleða eða á skíðum, þurfi að gæta sín sérstaklega núna.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að fyrra flóðið væri 4,5 að stærð. Eftir nánari skoðun Veðurstofunnar var flóðið metið sem 3,5 að stærð. Hefur fréttin verið uppfærð í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert