„Við verðum að halda ró okkar“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum ekki farið í gegnum þetta með því að fara á límingunum á hverjum degi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar hún er spurð um fregnir þess efnis að von sé á færri skömmtum af bóluefni lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins AstraZeneca gegn Covid-19 en gert hafði verið ráð fyrir.

Fái bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu fær Ísland 13.800 skammta frá framleiðandanum í febrúar, ekki 75 þúsund skammta eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Við sjáum það á fréttum frá AstraZeneca og Pfizer að það verður hliðrun innan tímabila. Aðalmálið er að við stöndum vel hér á landi. Við erum með öfluga dreifingu og öruggt heilbrigðiskerfi sem sinnir bólusetningu hratt og vel. Við verðum að halda ró okkar í gegnum þetta,“ segir Svandís.

Hún segir að í næsta mánuði sé von á 43 þúsund skömmtum frá Pfizer, 10 þúsund frá Moderna og tæplega 14 þúsund frá AstraZeneca. Tæplega 67 þúsund skammtar duga til að bólusetja 33.500 manns.

Svandís segir lykilatriði að við stöndum vel varðandi faraldurinn hér á landi og áfram þurfi að gæta að sóttvörnum innanlands og á landamærunum. 

Yfirvöld höfðu vænst þess að bólusetningu þorra þjóðarinnar yrði lokið fyrir mitt árið en Svandís segir til lítils að velta fyrir sér hvað er hvað í því:

„Við verðum bara að halda dampi. Við verðum að tryggja hraða og örugga dreifingu bóluefna þegar þau koma til landsins og að við missum ekki faraldurinn upp aftur.

Hún segir að ekki standi til að fara fram hjá samfloti ESB um bóluefnasamninga og leita annarra leiða við öflun bóluefnis:

„Við erum samstíga öðrum Evrópuríkjum og vinnum samkvæmt þeim samningi og munum gera það áfram.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert