Læknafélagið greiði fyrir snjómokstur

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Læknafélag Íslands var í Landsrétti í dag dæmt til að greiða J.H. vinnuvélum tæplega 1,3 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar vegna vangreidds snjómoksturs. 

Læknafélagið og J.H. vinnuvélar deildu um hvort samningur hefði komist á milli J.H. vinnuvéla og orlofssjóðs Læknafélagsins um snjómokstur að og við þrjú orlofshús sjóðsins á tímabilinu desember 2014 til apríl 2015. 

Í dómi Landsréttar var talið að samningur hefði komist á um að J.H. vinnuvélar annaðist snjómokstur fyrir Læknafélagið í desember 2014 og janúar 2015. Einnig var talið að samningur hefði komist á um snjómokstur 19. febrúar og 1. apríl 2015.

Verðið ekki ósanngjarnt

Ekki var fallist á það með Læknafélaginu að félaginu hefði verið rétt að líta svo á að snjómokstur og hálkuvörn hefðu átt að vera innifalin í viðhaldsgjaldi samkvæmt lóðarleigusamningum fyrir orlofshúsin eða að J.H. vinnuvélar hefði fallið frá rétti sínum til að krefjast greiðslu fyrir snjómokstur. 

Ekki var heldur talið að sýnt hefði verið fram á að það verð sem J.H. vinnuvélar krefðist fyrir snjómoksturinn og hálkuvörn væri ósanngjarnt eða að fyrirtækið hefði ekki notað hagkvæmustu tæki við snjómoksturinn. 

Loks var því hafnað að krafa J.H. vinnuvéla væri niður fallin fyrir tómlæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert