Varað við snörpum vindhviðum

Hvasst er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.
Hvasst er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. mbl.is/Gúna

Vegagerðin varar við snörpum vindhviðum á Grindavíkurvegi, á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Hvasst er við Markarfljót og undir Eyjafjöllum. Vetrarfærð er um norðanvert landið en víða orðið greiðfært um landið sunnanvert. Reikna má með snörpum vindhviðum við fjöll á sunnanverðu landinu í dag.

Þæfingsfærð er á Klettshálsi og Kleifarheiði en annars hálka, hálkublettir eða snjóþekja á Vestfjörðum. Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður.

Snjóflóðahætta er möguleg í Ólafsfjarðarmúla í dag, laugardag. Á Norðausturlandi er víða hálka eða snjóþekja á vegum en þæfingsfærð á Hólasandi, syðri leiðinni við Mývatn og á kafla á Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er víða hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð og skafrenningur á Fjarðarheiði og hvasst á Vatnsskarði eystra. Hreindýrahjarðir eru nú víða við veg og hafa m.a. sést í nágrenni álversins á Reyðarfirði, á Fagradal og á Jökuldal. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát. Hreindýrahjörð hefur sést á Breiðamerkursandi og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát á þessu svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert