Rannsaka hvort fleiri aðilar tengist málinu

Alls hafa átta verið handteknir í þágu rannsóknar málsins.
Alls hafa átta verið handteknir í þágu rannsóknar málsins. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Gangurinn er ágætur. Aðgerðir okkar hafa haldið áfram síðan í gær þegar við fórum í fjórar húsleitir og í kjölfarið voru fjórir aðilar handteknir. Það hefur verið gerð krafa um gæsluvarðhald yfir þremur en ekki verið tekin ákvörðun með þann fjórða.“

Þetta segir Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn um gang rannsóknarinnar á manndrápinu í Rauðagerði sl. laugardag.

Alls hafa því átta manns verið handteknir í þágu rannsóknarinnar, þar af einn Íslendingur sem er sagður hafa verið umsvifamikill í íslenskum fíkniefnaheimi í mörg ár. Sá hefur lýst sig alsaklausan af aðild af málinu og hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn sem gekk í gærkvöldi.

Auk hans sitja þrír til viðbótar í gæsluvarðhaldi og að minnsta kosti einn þeirra hefur einnig kært úrskurð um gæsluvarðhald til Landsréttar.

Rannsóknin ekki á frumstigi

Þeir sem voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í gær eru erlendir ríkisborgarar en sumir þeirra eru búsettir hér á landi og aðrir ekki að sögn Margeirs. Hann segist ekki geta tjáð sig um það hvernig lögreglan telur að þeir tengist málinu.

„Nei ég get ekkert farið í það. Við erum að skoða þátt hvers og eins af þessum aðilum sem við erum með í haldi nú þegar og þá hvort að einhverjir fleiri tengist þessu,“ segir hann.

Er rannsóknin enn á frumstigi eða komin lengra?

„Ég held að við séum að ná utan um þetta. Þetta er ekki alveg á frumstigi við erum búnir að stíga skrefinu lengra en það,“ bætir Margeir við. Hann telur að lögregla hafi framkvæmt um tíu húsleitir vegna málsins. Hald hefur verið lagt á ýmsa muni í þágu rannsóknarinnar, þar á meðal ökutæki.

Europol aðstoðar við upplýsingaöflun

Þá nýtur lögreglan liðsinnis Europol en Margeir segir aðstoðina vera í formi upplýsingaöflunar. Eitt af því sem verið er að rannsaka er hvort að málið tengist erlendum skipulögðum glæpasamtökum. 

„Eins og hefur komið fram þá höfum við verið að gera það en við höfum ekkert verið að gefa út hvort það sé þannig eða ekki. Ef lögreglan hefði vitneskju um það að almenningur væri í hættu þá myndum við bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum en við teljum svo ekki vera í þessu tilviki,“ bætir Margeir við.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert