Þingmenn vara við frekari vopnavæðingu

Sérsveit ríkislögreglustjóra.
Sérsveit ríkislögreglustjóra. mbl.is/​Hari

Vopnaburð lögreglu bar á góma í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Þar vöruðu bæði Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, við því að vopnavæða lögregluna á Íslandi frekar.

Olga Margrét færði fyrir því rök að lögregla hér á landi væri nú þegar vopnavædd. Hún sagði að í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn um vopnaburð lögreglu árið 2015 hefði komið fram að lögreglan ætti samtals 590 vopn og á tímabilinu frá ársbyrjun 2015 til 2020 hefði lögregla keypt 188 vopn til viðbótar.

Hún segir að ekki myndi breyta neinu þótt lögreglan vopnavæddist enn frekar og sagðist hrygg yfir því að morðið í Rauðagerði á laugardag síðastliðinn hefði orðið að tilefni til þess að ræða vopnaburð lögreglu í lögregluráði. Lögreglan hefði verið hvergi nærri þegar umrætt morð fór fram og því hefði engu skipt hvort lögregla væri vopnum búin eður ei.

„Í hvernig þjóðfélagi viljum við búa?“

Í sama streng tók Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem tók til máls strax á eftir Olgu. Hann sagði sjálfsagt að ræða getu lögreglunnar til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi innan þingsins. Lögreglan ynni gott og gríðarlega mikilvægt starf og því sjálfsagt að ræða það.

Hins vegar tók Kolbeinn undir varnaðarorð Olgu og sagði að Íslendingar yrðu að spyrja sig í hvernig þjóðfélagi þeir vildu búa. Kolbeinn sagðist þá sjálfur vilja búa í þjóðfélagi þar sem lögregla er ekki vopnum búin. Núverandi fyrirkomulag hefði sýnt sig virka, sérsveit ríkislögreglustjóra hefði yfir vopnum að ráða ef með þyrfti. Að lokum sagði Kolbeinn að sjálfsagt væri að efla lögreglu án þess þó að auka vopnaburð hennar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert