„Við viljum ekki vera með biðlista“

„Við erum að rýna í starfsemina, endurskipuleggja hana og skoða …
„Við erum að rýna í starfsemina, endurskipuleggja hana og skoða hvernig við getum nýtt þær auðlindir sem við höfum betur,“ segir Nanna Briem, forstöðumaður geðsviðs Landspítala. mbl.is/Ómar Óskarsson

Átröskunarteymi Landspítala hefur þurft að undirgangast hagræðingu eins og önnur þjónusta spítalans. Forstöðumaður geðþjónustu Landspítala segir að sannarlega vilji spítalinn ekki að bið eftir þjónustu átröskunarteymisins sé jafn langur og hann er í dag, eða um eitt og hálft ár. Unnið sé að úrbótum, meðal annars með því að samnýta betur þau meðferðarúrræði sem geðþjónustan býður upp á.

„Við viljum ekki vera með biðlista. Það er eitt af markmiðunum. Okkur finnst að fólk þurfi að fá þjónustu án þess að þurfa að bíða í fleiri, fleiri mánuði. Það er þangað sem við stefnum. Við erum að skoða hvað við getum gert hjá okkur til þess að draga úr biðlistum,“ segir Nanna Briem, geðlæknir og forstöðumaður geðþjónustu Landspítala. 

Hún segir að margir þættir útskýri það að biðtími hjá átröskunarteyminu hafi lengst úr tveimur til fjórum mánuðum í átta til tuttugu mánuði á fjórum árum. Einn þeirra þátta er hagræðing sem hefur orðið innan teymisins eins og annars staðar á spítalanum.

Hagræða ekki af léttum hug

Innan teymisins eru nú 5,2 stöðugildi og hefur þeim fækkað um 2,3 á fjórum árum.  

„Þessi þjónusta er ekki undanskilin hagræðingu frekar en önnur þjónusta. Það er aldrei gert af léttum hug en við þurfum náttúrulega að hagræða. Almennt séð eru stjórnendur í geðþjónustunni ofsalega öflugir í því að halda góðum rekstri en stundum þurfum við að hagræða og það er bara gert jafn yfir allt og þar sem við sjáum að það er mögulega hægt að gera eitthvað, að minnsta kosti tímabundið. Þetta eru aldrei skemmtilegar ráðstafanir,“ segir Nanna.

„Marg­ir sem sækj­ast eft­ir þjón­ustu átrösk­un­art­eym­is­ins eru með fjölþætt­an vanda …
„Marg­ir sem sækj­ast eft­ir þjón­ustu átrösk­un­art­eym­is­ins eru með fjölþætt­an vanda og geta nýtt önn­ur meðferðarúr­ræði bet­ur en hef­ur verið,“ segir Nanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Geðþjónusta Landspítala skoðar nú endurskipulagningu á því hvernig tekist er á við meðferð átröskunarsjúklinga á spítalanum.

„Við erum að skoða heilmikla endurskipulagningu þar sem verður miklu betri samnýting á þeim meðferðarúrræðum sem við erum með. Margir sem sækjast eftir þjónustu átröskunarteymisins eru með fjölþættan vanda og geta nýtt önnur meðferðarúrræði betur en hefur verið. Þó svo að það hafi verið tímabundin fækkun starfsmanna í teyminu, sérstaklega í fyrra og í hitt í fyrra, þá stendur þetta allt til bóta. Við erum að rýna í starfsemina, endurskipuleggja hana og skoða hvernig við getum nýtt þær auðlindir sem við höfum betur,“ segir Nanna.

Aðsóknin í átröskunarteymið ekki aukist mikið

Spurð hvort svipuð þróun hafi orðið á biðlistum innan annarra greina geðþjónustunnar segir Nanna að það sé misjafnt og fari eftir úrræðum. Hún bendir á að langur biðlisti sé eftir greiningu hjá ADHD-teyminu en þar hafi aðsóknin vaxið. Það er þó ekki staðan hjá átröskunarteyminu að sögn Nönnu, aðsóknin þar hefur ekki aukist mikið.

Nanna telur að einn vandi átröskunarteymisins sé sá að teymið þjálfar upp starfsfólk sem fer síðan annað vegna betri launa og minna álags. Hún segir að Landspítali sé ekki samkeppnishæfur með tilliti til launa, flestar stéttir geti fengið töluvert hærri laun annars staðar.

„Á meðan þú ert að þjálfa upp nýtt og óvant starfsfólk eru afköstin minni. Svo þegar þú ert búinn að þjálfa upp gerist það of oft að fólk fer og vinnur annars staðar þar sem er minna álag og hærri laun, þetta hefur mikil áhrif á lítil teymi,“ segir Nanna sem jánkar því að teymið finni mikið fyrir því þegar gott starfsfólk kveður. Hún bendir einnig á að geðhjúkrun hafi almennt staðið mjög höllum fæti hérlendis til þessa.

„Það stendur allt til bóta. Það er verið að þróa öflugra nám í geðhjúkrun sem er algjört lykilatriði í svona teymum.“

Fjármögnun teymisins er hluti af heildarfjármagni geðþjónustu Landspítala. Kostnaður við …
Fjármögnun teymisins er hluti af heildarfjármagni geðþjónustu Landspítala. Kostnaður við teymið hefur farið úr 73 millj­ón­um í 55 millj­ón­ir á fjórum árum. mbl.is/Hari

„Þeim mun fyrr sem maður grípur inn í, því betra“

Spurð hvort það geti ekki haft mikil áhrif á átröskun einstaklinga að þurfa að bíða lengi eftir meðferð segir Nanna að málum sé forgangsraðað.

„Ef það er einhver sem er metinn með mjög alvarleg einkenni er hann tekinn inn miklu fyrr. Svo erum við náttúrulega með bráðaþjónustu og bráðalegudeildir. Ef það er þannig að öryggi einstaklings er ógnað vegna alvarlegrar megrunar eða alvarlegra einkenna þá er hann náttúrulega lagður inn. Það er ekki þannig að ef staðan sé alvarleg sé fólk samt að bíða í mjög langan tíma.“

En það hlýtur að vera best að geta gripið inn í átröskunina sem allra fyrst?

„Auðvitað. Það á við um alla sjúkdóma. Þeim mun fyrr sem maður grípur inn í, því betra. Það er auðvitað þess vegna sem við viljum ekki vera með svona langa biðlista,“ segir Nanna og bætir því við að lokum að kannski sé óraunhæft að gera ráð fyrir því að útrýma biðlistum alveg en markmiðið sé að stytta þá verulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert