Guðmundur Felix kominn á ról

Guðmundur Felix Grétarsson er kominn á ról og fór í …
Guðmundur Felix Grétarsson er kominn á ról og fór í fyrsta skipti eftir aðgerðina út fyrir dyr sjúkrahússins í dag.

Guðmundur Felix Grétarsson fór í dag í fyrsta skiptið út eftir aðgerð þar sem hann fékk grædda á sig handleggi í Lyon í Frakklandi. Þá segist hann vera orðinn að mestu verkjalaus, en þreyttur í öxlunum. Síðustu daga hefur hann gert tilraunir með stuðningsbúnað til að halda undir nýju hendurnar, þar sem saumarnir eru viðkvæmir og nauðsynlegt að hendurnar haldist fast upp að öxlunum.

„Örlítið Frankenstein-leg“ ummerki

Guðmundur Felix deildi myndbandi á facebooksíðu sinni í dag þar sem hann sýnir vel ummerki aðgerðarinnar á öxlunum og er bara nokkuð sáttur með hvernig hægri öxlin lítur út sem og sú vinstri að framan. Segir hann að öðru máli gegni um vinstri öxlina að aftan, en ummerkin þar séu „örlítið Frankenstein-leg“. Guðmundur Felix bætir því þó við að síðar meir verði líklega hægt að laga það með lýtaaðgerð.

Nýtt vandamál sem hefur ekki komið upp lengi

Þá er einnig komið að vandamáli sem Guðmundur Felix hefur ekki þurft að glíma við í lengri tíma, en hann bendir á að komið sé að því að þurfa að snyrta á sér fingurneglurnar. Segir hann að móðir hans muni aðstoða við það fljótlega.

Guðmundur Felix átti að fara á endurhæfingastöð í dag, en ekkert verður af því þar sem enn á eftir að klára nokkur atriði á sjúkrahúsinu sem ekki næst fyrr en á fimmtudaginn. Þá segir hann að líklega muni hann fara í endurhæfinguna 1. mars.

Í Lyon var í dag um 15°C og sól og nýtti Guðmundur Felix daginn til að fara í fyrsta skipti út eftir aðgerðina. „Þetta er fullkominn tími til að byrja nýtt líf,“ segir Guðmundur Felix og bætir við að verkirnir séu að mestu farnir og hann taki í dag orðið lítið af verkjalyfjum. Hann verði hins vegar enn nokkuð þreyttur í öxlunum, enda mikil breyting frá því sem áður var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert