Hoppaði í veg fyrir umferðina

Tilkynnt var um konu gangandi á miðri akbraut og hoppandi í veg fyrir umferð á Sæbrautinni í hverfi 104 skömmu eftir miðnætti.

Konan, sem var ölvuð og fór ekki að fyrirmælum lögreglu, var handtekin og færð á lögreglustöð þar sem reynt var að ræða við hana.

Konan fékk síðar að fara heim þar sem hún sagðist ætla að fara að sofa, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Komust ekki inn í skartgripaverslun

Tilkynnt var um innbrot og eignaspjöll í skartgripaverslun í Kópavogi á fjórða tímanum í nótt. Tveir menn brutu rúðu í versluninni en náðu ekki að komast inn. Fóru þeir tómhentir á braut.

Á sjötta tímanum í gær var tilkynnt um búðarhnupl í miðbæ Reykjavíkur. Afskipti voru höfð af manni sem er grunaður um að hafa stolið kjöti.

Maður var handtekinn á áttunda tímanum í gærkvöldi í hverfi 105 grunaður um vörslu/sölu fíkniefna og brot á vopna- og lyfjalögum. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglunnar.

Upp úr klukkan hálffimm í nótt var tilkynnt um innbrot í fataverslun í hverfi 108. Lögreglumenn mættu á vettvang en ekkert nánar fram um málið í dagbókinni.

Rúður brotnar í strætóskýli

Tilkynnt var um eignaspjöll í Hafnarfirði laust fyrir klukkan fjögur í nótt. Brotnar voru rúður í strætóskýli.

Kannað var með réttindi og ástand ökumanna í gærkvöldi í hverfi 109 í Breiðholti. Afskipti voru höfð af 28 ökumönnum og voru þeir allir í góðu ástandi en einn reyndist sviptur ökuréttindum.

Síðar um kvöldið var kannað með réttindi og ástand ökumanna í hverfi 111 í Breiðholti. Afskipti voru höfð af 72 ökumönnum og allir voru þeir í góðu ástandi fyrir utan einn sem er grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert