„Eitthvað sem okkur þykir miður“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að öllum, sem komu að …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að öllum, sem komu að tilfærslu leghálskrabbameinsskimana til hins opinbera, þyki miður að skapast hafi óvissa. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Það er alveg ljóst að flutningurinn frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera skapaði óvissu og óróleika hjá fólki og það er eitthvað sem okkur þykir miður, öllum sem komum að þessu verkefni,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is. 

Landspítalinn sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í kvöld þar sem viðurkennt var að yf­ir­færsla verk­efna frá Krabba­meins­fé­lagi Íslands yfir til Heilsu­gæsl­unn­ar, Land­spít­ala og Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri, hafi ekki verið hnökra­laus. 

Er Landspítalinn og Heilsugæslan að taka ábyrgð á þeim annmörkum sem rætt hefur verið um varðandi leghálsskimanir hingað til?

„Í sjálfu sér er heilbrigðiskerfið í heild auðvitað áfram um það að eyða óvissu og tryggja að hlutirnir lendi sem fyrst og Landspítalinn kemur að því með Heilsugæslunni,“ segir Páll.

Fleiri konur þurfi að fara í skimun

„Það er búið að skipuleggja og verið að skipuleggja mjög góða þjónustu, þar sem á að vera framúrskarandi aðgengi að skimun sem er algjört lykilatriði,“ segir hann og heldur áfram:

„Það er ljóst að konur þurfa að fara í skimun en hafa verið að fara í skimun á undanförnum árum. Með þessum breytingum er vonin að það verði hægt að með auknu aðgengi,“ segir hann. Verið sé að byggja upp þjónustu á Landspítalanum og eftir mánuð opni brjóstamiðstöð á Eiríksgötu 5, þar sem skrifstofur spítalans voru áður.

„Það er líka bent á það í tilkynningunni sem við sendum í dag að við erum að setja á sérstakt netspjall við skjólstæðinga á Heilsuveru þar sem fólk getur strax komist í samband við hjúkrunarfræðing og ljósmóður og við munum vera í samstarfi við og styðja Heilsugæsluna þar,“ segir hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert