Fleiri tilkynningar í janúar en yfirleitt á ári

Tuttugu og tvær af tilkynningum janúarmánaðar voru vegna gruns um …
Tuttugu og tvær af tilkynningum janúarmánaðar voru vegna gruns um alvarlega aukaverkun. mbl.is/Arnþór Birkisson

Tilkynningar um aukaverkanir lyfja sem bárust Lyfjastofnun í janúar voru fleiri en nokkru sinni á mánaðartímabili. Þær voru 235 talsins, fleiri en berast að jafnaði á heilu ári. Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar. 

Að líkindum hefur tilkynningaskylda heilbrigðisstarfsfólks sem bundin er í ný lyfjalög, haft þau áhrif að tilkynningum fjölgaði. Einnig kann aukin vitund almennings um mikilvægi aukaverkanatilkynninga á tímum heimsfaraldurs að skýra þetta að einhverju leyti.

Miðlun upplýsinga um bóluefni gegn COVID-19 og hugsanlegar aukaverkanir af þeim hefur enda verið áberandi. 


Af tilkynningum janúarmánaðar tengdust 208 bóluefnum gegn Covid-19; 139 vegna Comirnaty (BioNTech/Pfizer), og 69 vegna bóluefnis Moderna. Tuttugu og sjö tilkynninganna tengdust öðrum lyfjum.

Tuttugu og tvær af tilkynningum janúarmánaðar voru vegna gruns um alvarlega aukaverkun, og tengdust 11 þeirra Comirnaty, hinar 11 tengdust öðrum lyfjum.

Fimmtíu og átta tilkynninganna voru frá læknum, en langflestar tilkynningar bárust frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, eða 131. Lyfjafræðingar sendu sjö tilkynningar um aukaverkanir, og 39 bárust frá notendum eða aðstandendum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert