Komi ekki á óvart að fólk sé skelkað

Samgöngur geta verið mikilvægt öryggistæki þegar jarðskjálftar, eldgos eða snjóflóð eru annars vegar. Vegagerðin vaktar nú vegi og brýr, en sprunga hefur komið í Suðurstrandarveg í jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir Reykjanesskaga.

Jarðhræringar voru til umræðu í Silfrinu í morgun, en gestir voru Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Páll Valur Björnsson, bæjarfulltrúi í Grindavík. 

Jarðskjálftahrinan sem hófst á miðvikudag hefur farið fram hjá fáum, en skjálftar yfir stærð 3 hafa ítrekað fundist greinilega á höfuðborgarsvæðinu og víðar. 

„Þetta er óþægilegt. Þetta leggst misjafnlega í fólk, sumir eru náttúrulega hræddir. Það kemur ekkert á óvart, það eru margir skelkaðir. Þessi hrina sem kom núna hefur verið svona langvinnari og fleiri skjálftar sem hefur haft það í för með sér að fólk verður svona skelkaðra,“ sagði Páll Valur. 

Páll Valur sagði það mikilvægt að halda ró sinni og hlusta á sérfræðinga sem telja ólíklegt að skjálftavirknin verði að náttúruhamförum. Mikið eftirlit sé með stöðunni og upplýsingamiðlun sé góð. 

Vilhjálmur tók undir orð Páls og sagði eðlilegt að fólki finnist óvissa óþægileg. Það séu þó ekki miklar líkur á eldgosi og stóra málið sé að fólk hugi að heimilum sínum og festi alla þunga muni. 

Viðbragðsáætlanir góðar 

Sigurður Ingi sagði að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra héldi vel utan um skjálftavirknina eins og annað. Verulega hafi reynt á almannavarnakerfið síðastliðið ár og það hafi virkað býsna vel. 

Þá segir Sigurður Íslendinga búa vel að framúrskarandi vísindamönnum, þegar komi að jarðvísindum sé Ísland opin rannsóknarstofa. 

„Þekking okkar er umtalsverð og viðbragðsáætlanir góðar,“ sagði Sigurður. Vegagerðin sé með vöktun á öllum vegum og brúm. Sprunga sem myndaðist á Suðurstrandarvegi í gær verði skoðuð betur. Hann segir mikilvægt að hafa það í huga að við getum ekki verið búin undir hvað sem er. 

Vilhjálmur sagði þá að mikilvægt væri að reyna að taka eitthvað jákvætt út úr áskorunum sem þessum. 

„Suðurstrandarvegurinn, sem er náttúrulega algjör perla fyrir okkur í Grindavík og Suðurnesin, hann kemur út sem flóttaleið. Við erum að undirbúa okkur og þá fáum við eitthvað gott út úr þessu. Þegar við erum að byggja þessa innviði njótum við góðs af þessu. Svona reynsla hjálpar við þessi verkefni,“ sagði Vilhjálmur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert